Innlent

Fasteignamat húnæðis hækkar um næstu áramót

Fasteignamat húnæðis á öllu landinu hækkar um 2,5% um næstu áramót. Fasteignamat hækkar um hátt í þriðjung í hluta Þingholtanna í Reykjavík en lækkar um 16% á Völlunum í Hafnarfirði.

Fasteignaskrá Íslands kynnti í morgun breytingar sem gerðar verða á fasteignamati landsmanna og taka gildi um næstu áramót. Búið er að breyta þeim aðferðum sem notaðar eru í fasteignamati og hefur það þau áhrif að fasteignamat sumra eigna hækkar á meðan mat annarra eigna annað hvort lækkar eða stendur í stað.

Þorsteinn Arnalds er aðstoðarframkvæmdastjóri mats og hagsviðs hjá Fasteignaskrá Íslands. „Markmiðið er að fasteignamat endurspegli að fullu gangverð fasteigna þannig að fasteignagjöld endurspegli hvert markaðsvirði eigna er."

Húsnæðiseigendur fá á næstunni sent til sín í pósti nýtt fasteignamat og sjá þá sumir þeirrar nokkrar breytingar. Þorsteinn segir að fasteignamat þeirra sem hafi verið of hátt muni hækka og þar með muni gjöld þeirra sem hafi haft of lágt mat hækka og gjöldin að sama skapi.

Nokkur munur er á því hvernig fasteignamat breytist á ákveðnum svæðum. Þannig hækkar fasteignamat í sunnanverðum Þingholtunum í Reykjavík um rúm 30% en lækkar á Völlunum í Hafnarfirði um 16%. Alls hækkar fasteignaverð íbúðahúsnæðis um 2,5%. Þá lækkar matið á atvinnuhúsnæði um 6% og á sumarbústöðum um 5%.

Sveitarfélögin hafa töluverðar tekjur af fasteignagjöldum. Sigrún Björk Jakobsdóttir er stjórnarmaður í Fasteignaskrá Íslands og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri. Hún segir erfitt að segja til um það nú hvaða áhrif breyting á fasteignamatinu hefur á þau fasteignagjöld sem sveitarfélögin innheimta.

„Þetta verður að skoðast í samhengi við tekjuþörf sveitarfélaganna og eins að stilla skattheimtu í hóf. En þetta er svo sannarlega mikilvægur skattstofn sem skilar sveitarfélögum eitthvað í kringum 41 milljarði," segir Sigrún Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×