Innlent

Skipar vinnuhóp til að bæta eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur skipað vinnuhóp til að kanna hvaða möguleikar eru fyrir hendi innan gildandi laga og alþjóðlegs samstarfs til að efla eftirlit með útlendingum og tryggja að verið sé að nýta þær heimildir sem til staðar eru til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi hér á landi.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að bæði sé átt við þá útlendinga sem njóta réttar um frjálsa för samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þá sem ekki njóta þess réttar. Meðal annars verði skoðað hvort unnt sé að taka upp tímabundið vegabréfaeftirlit eða ókerfisbundið eftirlit bæði á landamærum og innan þeirra og er hópnum falið að koma með tillögur um úrbætur.

Í vinnuhópnum eiga sæti Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sem jafnframt er formaður hans, Guðbrandur Guðbrandsson, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra, Þorsteinn Gunnarsson, forstöðumaður hjá Útlendingastofnun, Jóhann Karl Þórisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, og Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×