Erlent

Varað við sjálfsmorðshneigð af völdum reykingalyfja

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Tvær tegundir lyfja, sem hjálpa fólki við að hætta reykingum, verða hér eftir merktar með varnaðarorðum um geðræn áhrif á bandarískum markaði.

Það eru Zyban og Chantix sem bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefur fyrirskipað að skuli merkt þannig að því sé komið til neytandans á skilmerkilegan hátt að notkun þeirra geti haft neikvæð áhrif á geðslag þeirra. Áhrifin virðast ekki vera neitt smáræði þar sem hér er verið að vara við þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingum sem notkun lyfjanna getur haft í för með sér.

Doktor Janet Woodcock hjá lyfjamatsdeild eftirlitsins segir að meta verði þessar aukaverkanir með hliðsjón af því að lyfjunum sé stefnt gegn einu stærsta heilbrigðisvandamáli heims, reykingum, en engu að síður verði að kanna það til hlítar hve algengar þessar aukaverkanir séu og síðast en ekki síst verði að vara neytendur við þeim.

Síðan Chantix var sett á markað árið 2006 er vitað til þess að 98 notendur þess hafi fyrirfarið sér og 188 reynt það. Lyfjaeftirlitið gerir þó þann fyrirvara að hvorki Zyban né Chantix innihaldi nikótín og hluti vandans geti verið fráhvarfseinkenni þess.

Flestir reykingamenn þekkja á eigin skinni að það er ekkert gaman að hætta að reykja þótt það borgi sig vissulega en þegar reykingalyfin eru orðin beinlínis lífshættuleg má setja spurningarmerki við það hvort tilgangurinn helgi raunverulega meðalið, í orðsins fyllstu merkingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×