Lífið

Treysti því að fólk trúi að ég sé fagmaður

Sölvi Tryggvason ræðir við Davíð Oddsson í kvöld.
Sölvi Tryggvason ræðir við Davíð Oddsson í kvöld.

Sölvi Tryggvason þáttastjórnandi á Skjá einum verður með Davíð Oddsson nýráðinn ritstjóra Morgunblaðsins í viðtali í kvöld. Um aukaþátt er að ræða en Sölvi hefur reynt að fá Davíð í viðtal í margar vikur. Hann segist nokkuð vel undirbúinn en reikna má með því að fjöldi fólks fylgist með viðtalinu.

„Já ég er búinn að undirbúa mig nokkuð vel, þetta er búið að liggja fyrir síðan í gær þannig að ég hef haft fínan tíma," segir Sölvi.

Þátturinn sem er á dagskrá klukkan 18:50 er ekki í beinni útsendingu vegna tæknimála að sögn Sölva en hann verður tekinn upp skömmu áður en hann fer í loftið.

Aðspurður hvort hann sé ekkert stressaður fyrir viðtalinu þar sem flestir hafa sterkar skoðanir á viðmælandanum segir Sölvi þetta vera eins og hvert annað viðtal.

„Ef það er einhver maður sem ekki er hægt að taka viðtal við án þess að vera gagnrýndur þá er það Davíð Oddsson. Ég treysti því bara að fólk trúi því að ég sé fagmaður og hann fái sömu meðferð hjá mér og aðrir."

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Sölvi tekur viðtal við Davíð því hann var í viðtali hjá honum og Þorbirni Þórðarsyni, blaðamanni Morgunblaðsins, í sumar. Sölvi segist hafa reynt að fá Davíð í viðtal í átta mánuði áður en að því varð.

Davíð Oddsson veitir fjölmiðlum ekki viðtöl á hverjum degi en nú er hann að mæta í annað skiptið til Sölva á stuttum tíma.

Eruð þið svona fínir félagar?

„Nei alls ekki," segir Sölvi og hlær. „Ég hef þurft að hafa mjög mikið fyrir því að fá hann og hef reynt mjög markvisst að ná honum. Ég hef enga beina contact-línu á hann og hef því reynt allar óhefðbundnar leiðir sem hægt er að nota. Hann er hvorki með farsíma né tölvupóst."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.