Erlent

Helstu menn Hollywood saman í mynd

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sylvester Stallone hefur marga fjöruna sopið í hasarmyndabransanum.
Sylvester Stallone hefur marga fjöruna sopið í hasarmyndabransanum.

Þrjár hasarmyndahetjur sameina krafta sína í kvikmynd, sem frumsýnd verður næsta sumar og hefur vakið mikla eftirvæntingu.

Það eru þeir félagar Arnold Schwarzenegger, Sylvester Stallone og Bruce Willis sem eru aðalnúmerin í kvikmyndinni The Expendables en hún verður einn af aðalsmellum vestrænna kvikmyndahúsa sumarið 2010.

Þríeykið hefur aldrei leikið í einni og sömu myndinni og reyndar hafa þeir ekki einu sinni hist síðan þeir voru allir saman komnir við opnun veitingastaðarins Planet Hollywood haustið 1991. Stallone lét þau orð falla á blaðamannafundi að samstarf þeirra þremenninga, sem oft hefur verið stirt á milli, væri eðlilega erfitt þar sem engin leið væri að koma þremur manneskjum með jafnmikið sjálfsálit fyrir í einu og sama herberginu.

Ekki eru þó öll kurl komin til grafar með þeim þremur stórstjörnum sem hér hafa verið nefndar þar sem The Expendables mun einnig skarta þeim félögum Mickey Rourke og bardagalistagarpinum Jet Li. Hasarmyndaunnendur ættu því að geta beðið sumarsins 2010 með töluverðri eftirvæntingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×