Lífið

Hrós frá kóngi söngleikjanna

Upp með sér Katrín Ýr var ánægð með gagnrýni Tims Rice á söng hennar.
Upp með sér Katrín Ýr var ánægð með gagnrýni Tims Rice á söng hennar. fréttablaðið/GVA
„Hann líkti mér við Yvonne Elliman, sem söng lagið upphaflega. Hann sagði að ég minnti hann á hana og hljómaði eiginlega alveg eins og hún, sem mér fannst geðveikt,“ segir Katrín Ýr Óskarsdóttir söngkona um masterclass námskeið sem hún tók hjá Tim Rice, einum frægasta söngleikjahöfundi allra tíma.

Katrín söng lagið I Don‘t Know How to Love Him, úr Jesus Christ Superstar sem Rice samdi ásamt Andrew Lloyd Webber. Hún segir söngleikinn í uppáhaldi. „Ég þurfti að sannfæra kennarann minn um að fá að syngja þetta lag, ekki eitthvað annað. Hann kom upp í skóla til að segja frá lífi sínu og hvernig hann hefði komist áfram í bransanum. Við vorum nokkur sem fengum að syngja fyrir hann og fá tilsögn frá honum. Hann er rosalega jarðbundinn miðað við hvað hann er frægur.“

Katrín Ýr stundar nám í Institute of Contemporary Music Performance og á ár eftir. Meðfram námi hefur hún kennt og sungið með ýmsum böndum, auk þess að gera eigin tónlist. „Það er búið að vera frekar mikið að gera í sumar. Ég er í einhverjum fimm eða sex hljómsveitum í augnablikinu, ég kvarta ekki.“

Áhugasamir Íslendingar í London geta kíkt á Katrínu á The Good Ship í Kilburn átjánda september.

Er stefnan sett á söngleikina? „Ég ætlaði í söngleikjanám, áður en ég fór í námið sem ég er í núna. Ég veit það ekki. Ég er búin að vera að vinna með stelpum sem hafa unnið mikið á West End. Ég hef verið að spjalla við þær og önnur ætlar að láta mig vita ef hún veit af einhverjum prufum, þannig að það er aldrei að vita. Það væri ekkert leiðinlegt, þó ég sé meira í popp- og rokk-geiranum.“ -kbs





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.