Lífið

Ég er ekki svona ömurlegur sjálfur

Sveinn Torfi og Ástríður (Ilmur Kristjánsdóttir).
Sveinn Torfi og Ástríður (Ilmur Kristjánsdóttir). Stöð 2
Rúnar Freyr Gíslason er í tveimur áberandi hlutverkum í íslenskum sjónvarpsþáttum þessa dagana.

„Nei, nei, ég er ekki svona ömurlegur sjálfur,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, sem leikur tvo leiðindagaura í sjónvarpinu um þessar mundir. Annars vegar er það Sveinn Torfi, kærasti Ástríðar í samnefndum þáttum á Stöð 2, og hins vegar pólitíkusinn Orri, eiginmaður rannsóknarlögreglukonunnar Ingu í Hamrinum í Ríkissjónvarpinu. Af þessum tveimur kann Rúnar mun betur við pólitíkusinn Orra í Hamrinum.

„Ég sé hann nú ekki sem einhvern fávita, heldur er þetta bara ungur maður á framabraut. Það hefur ekkert sannast á hann. Þótt það sé kannski stirt á milli þeirra Ingu er það nú bara hlutur sem vill gerast þegar það er brjálað að gera hjá báðum í samböndum. Týpan er skírskotun í unga stjórnmálamenn en ég nefni engin nöfn.“

Rúnar Freyr Gíslason neitar því staðfastlega að vera sama fíflið og Sveinn Torfi.Fréttablaðið/Stefán
Rúnar samþykkir þó að Sveinn Torfi í Ástríði sé glataður gaur. 

„Jú, hann er óttalegt fífl. Eiginlega versta tegundin: væmið fífl! Maður sem segist vera „vinner“ er náttúrlega langt í frá að vera „vinner“. En hann hefur alla mína samúð. Það er svona gaur í okkur öllum, bara spurning hvað hann er ríkjandi. Hverjir þola höfnun? Ég þekki nokkra svona gaura. Þeir fúnkera vel og koma sterkir inn við fyrstu kynni. En þegar hlutirnir ganga ekki eins og þeir vilja þá breytast þeir.“

Rúnar segir Svein Torfa eiga eftir að ganga í gegnum enn frekara helvíti í þeim tveimur þáttum sem eftir eru af seríunni. „Þessir þættir hafa fengið góð viðbrögð og það hefur komið til tals að búa til aðra seríu. Ég veit samt ekki hvort Sveinn Torfi verði mikið með í henni.“

Rúnar starfar þennan vetur í Borgarleikhúsinu „í láni“ frá Þjóðleikhúsinu. Hann sést næst í Fjölskyldunni, sem verður frumsýnd 30. október. Þar á eftir leikur hann í Faust og Gauragangi.

En ekkert meira sjónvarp?

„Nei, ekki eins og er. En maður vonar bara að þetta haldi áfram að vera svona blómlegt. Sunnudagskvöldin eru allt í einu orðin uppáhaldskvöldin manns."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×