Erlent

Þúsundir gætu látist úr kulda og flensu í Bretlandi

Kuldi og flensa gætu fellt þúsundir manna í Bretlandi í vetur að mati mannúðarsamtaka þar í landi. Mikill kuldi, skæð flensa og efnahagskreppan koma illa við eldri borgara og þá sem veikari eru fyrir.

Dauðsföll á Bretlandseyjum eru fleiri á veturna en á öðrum tíma ársins. Fram kemur í Daily Telegraph að 25 þúsund fleiri ellilífeyrisþegar látist á bilinu desember til mars en aðra mánuði. Sérfræðingar spá því að þau gætu verið enn fleiri nú þegar veturinn er sérlega harður.

Dr Alan Maryon-Davis formaður mannúðarsamtakanna UK Facility of Public Health segir í viðtali við blaðið að það séu sterk tengsl milli veðurfars og dauðsfalla í Bretlandi. Fyrir hverja gráðu sem hitastigið lækki niður fyrir meðaltal fjölgi dauðsföllum um átta þúsund. Hann segir þessa tölu mun hærri á Bretlandi en til að mynda í Finnlandi eða Rússlandi, þar sem fólk sé betur í stakk búið til að takast á við harða vetur.

Maryon-Davis segir flensu sem nú gangi, efnahagsástandið og hækkandi hitunarkostnað gera ástandið sérlega hættulegt fyrir eldra fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×