Innlent

Kröfugöngur um allt land

Búist er við að launafólk safnist saman að venju í dag til að taka þátt í kröfugöngum á baráttudegi verkalýðsins. Verkalýðsfélög víða um landið hafa skipulagt samkomur af þessu tilefni.

Í Reykjavík verður safnast saman framan við Hlemm klukkan eitt en gangan leggur af stað klukkan hálf tvö. Gengið verður niður Laugaveg og inn á Austurvöll og leika Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur fyrir göngunni.

Í kröfugöngunni sjálfri verða haldnar örræður en útifundurinn á Austurvelli hefst klukkan 14.10 og heldur Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ fyrstu ræðu fundarins. Aðrir ræðumenn á Austurvelli í dag eru Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins og Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Launafólk annars staðar á landinu mun einnig koma saman í dag, meðal annars á Ísafirði, í Vestmannaeyjum, á Akureyri, Blönduósi, Akranesi og í Stykkishólmi en nokkuð ítarlegar upplýsingar um hátíðahöldin á landinu eru á slóðinni asi.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×