Lífið

Ný plata og afmælistónleikar

todmobile Hljómsveitin heldur upp á tvítugsafmælið sitt með tónleikum í Íslensku óperunni.
todmobile Hljómsveitin heldur upp á tvítugsafmælið sitt með tónleikum í Íslensku óperunni.

Todmobile heldur tuttugu ára afmælistónleika í Íslensku óperunni 4. nóvember. „Ég hlakka mikið til. Við höfum ekki haldið tónleika þarna síðan okkar fyrstu fimm starfsár. Þá var þetta fastur liður eins og venjulega, alltaf á haustin,“ segir gítarleikarinn Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.

„Fyrstu tónleikarnir sem við héldum voru þar, þannig að við berum afskaplega hlýjar tilfinningar til þess sem húsið hefur upp á að bjóða.“

Ný safnplata frá Todmobile kemur út 2. nóvember og þar verða tvö ný lög sem eru í vinnslu um þessar mundir. Annað þeirra nefnist Ertu ekki að djóka í mér? „Það er alltaf skemmtilegra þegar menn eru að fara í svona upprifjun að koma með eitthvað smá krydd,“ segir Þorvaldur um nýju lögin og bætir við að þau séu í anda hins vinsæla Lof mér að sjá.

Tæp tvö ár eru liðin síðan Todmobile hélt síðast tónleika. Þá spilaði sveitin í beinni útsendingu í Sjónvarpinu en áður var hún ein þeirra sem stigu á svið á stórtónleikum á Laugardalsvelli í boði Kaupþings. Næstu tónleikar sveitarinnar verða á Nasa 28. október þar sem stemningin verður vafalítið gríðarleg. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.