Innlent

Lamaðist á Kárahnjúkum og fær 56 milljónir

Kínverjanum Yushan Shao voru dæmdar 56 milljónir króna í skaðabætur af hálfu Impregilo eftir að hann fékk hundrað kílóa steypuklump ofan á sig í jarðgöngum við Kárahnjúkavirkjun og lamaðist í kjölfarið.

Atvikið átti sér stað í desember árið 2006. Steypa sem samkvæmt lögregluskýrslu vó 80-100 kg, hrundi úr lofti gangnanna og lenti á baki Yushan. Fallhæð steypunnar var um það bil 7,2 metrar.

Yushan féll á brautarteina á gangnagólfinu og lenti með andlitið ofan í vatni, en eftir göngunum rann straumvatn. Samstarfsmenn stefnanda drógu hann upp úr vatninu og báru hann á nærliggjandi járnbrautarvagn. Hann var fluttur út úr göngunum og með sjúkrabifreið á Egilsstaði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Yushan skaddaðist alvarlega á mænu í slysinu og lamaðist frá brjósti.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að slysið hafi verið tilkynnt Vinnueftirliti ríksins tveimur sólahringum eftir að lögreglu var tilkynnt um slysið. Þegar eftirlitsmennirnir komu á vettvang var búið að breyta slysstaðnum. Því var ekki mögulegt að rannsaka málið til fulls. Að auki er fyrirtækjum skylt samkvæmt lögum að tilkynna um slys innan við sólarhring til Vinnueftirlitsins.

Því segir í dómsorði: Hefði slysið verið tilkynnt með þeim hætti sem mælt er fyrir um, og vettvangi ekki breytt, hefði verið unnt að rannsaka hvaða steypa það var sem féll á stefnanda og hvort hann kom sér fyrir undir steypu sem hann var sjálfur nýbúinn að sprauta. Þetta var hins vegar ekki athugað frekar en að framan er lýst.

Því var niðurstaða dómsins að Yushan hafi ekki borið nokkra ábyrgð á slysinu. Sjálfur er hann metinn sem 90 prósent öryrki. Honum voru því dæmdar 56 milljónir í skaðabætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×