Innlent

Afskriftaleiðin kemur Íslandsbanka til góða

Afskriftaleið Íslandsbanka er gerð á viðskiptalegum forsendum og mun koma bankanum til góða, segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka. Skuldbreyti viðskiptavinir erlendum lánum í íslensk þá bæti það gjaldeyrisjöfnuð bankans.

Vatnaskil urðu í lánamálum heimilanna í gær þegar Íslandsbanki upplýsti að frá fyrsta nóvember gætu viðskiptavinir þeirra með gengis- og verðtryggð húsnæðislán breytt þeim í óverðtryggð krónulán og við það myndi höfuðstóll erlendra lána lækka um 25% en krónulána um 10%. Þannig myndi höfuðstóllinn lækka í samræmi við stöðu lánanna nokkrum vikum fyrir bankahrun.

Þetta er almenn aðgerð sem stendur öllum viðskiptavinum Íslandsbanka til boða - en hvorki stjórnvöld né aðrar lánastofnanir hafa ljáð máls á því að fara í slíkar almennar leiðréttingar á lánum. Viðkvæði stjórnvalda hafa gjarnan verið að slík aðgerð myndi setja Íbúðalánasjóð á hliðina á örfáum mánuðum.

En hvernig skyldi þá standa á því að Íslandsbanki treystir sér til að leiðrétta höfuðstóla fasteignalána með þessum hætti? Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir að skuldbreyting erlendra lána verði til þess að draga úr gengissveiflum hjá bankanum, sem er nú einkum að nota innlán - þ.e. innistæður í krónum - til útlána. Með skuldbreytingunni standi fólk auk þess betur í skilum, enda sé nú tæpur helmingur gengislánaskuldara með lán sín fryst eða í greiðslujöfnun.

Um 3000 einstaklingar skulda húsnæðislán hjá bankanum, um 125 milljarða í verðtryggðum en 25 milljarða í gengislánum. Fólk mun hvorki greiða stimpil- né lántökugjald af skuldbreytingunni, verði hún gerð fyrir áramót. Þess má geta að fólk afsalar sér ekki við skuldbreytingu rétti til skaðabóta komi til þess að gengislán verði dæmd ólögleg.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×