Innlent

Of mikil læti í Sturlu vörubílstjóra

Breki Logason skrifar
Lögreglan ræðir við Sturlu á mótmælum við Alþingishúsið.
Lögreglan ræðir við Sturlu á mótmælum við Alþingishúsið.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að einum mótmælanda við Seðlabankann hafi verið kynnt lögreglusamþykkt reykjavíkurborgar vegna hávaða sem hann myndaði með mikilli lúðraþeytingu. Um er að ræða Sturlu Jónsson vörubílstjóra sem mótmælt hefur með mjög stórum gaslúðri síðustu daga. Um tuttugu manns mótmæla við Seðlabankann að sögn yfirlögregluþjóns.

„Þessi samþykkt bannar mögnun hljóðs á almannafæri og það hefur hlotist mikið ónæði af þessu. Þetta truflar fólk þarna í nágrenninu þar sem þarna er hótel og skrifstofur. Þetta beindist því bara gegn þessum eina manni," segir Geir Jón.

Geir Jón segir að Sturlu hafi einfaldlega verið bent á að þetta væri brot á umræddri samþykkt og ef hann ekki hætti fengi hann þá meðferð sem því fylgir.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri þekkti ekki til umrædds atviks en gerði ráð fyrir að menn væru að kynna þessa samþykkt sem bannar mögnun hljóðs með hátölurum, hljómflutningstækjum eða öðru á almannafæri.

„Þetta er nú bara til þess að enginn gangi heyrnarlaus frá þessu, það er verið að vernda mótmælendur sem og aðra. Þeir hafa jafnvel verið að kvarta yfir hvor öðrum," segir Stefán.

Um tónleika Bubba og Egó í gær sem spiluðu fyrir utan bankann segir Stefán að leyfi hafi verið fyrir því. „Annars stýra mínir menn þessu af röggsemi og standa sig vel."

Ekki náðist í Sturlu Jónsson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×