Lífið

Baggalútur vill Rúnars-styttu

Kristinn Rúnar Hartmannsson við styttuna af Rúnari Júlíussyni.
Víkurfréttir/hilmar bragi
Kristinn Rúnar Hartmannsson við styttuna af Rúnari Júlíussyni. Víkurfréttir/hilmar bragi

„Okkur langar ógeðslega mikið í hana. Við ætlum að kanna fjárhagsstöðuna og sjá hvað kemur út úr ársskýrslunni, hvort það sé einhver rekstrarafgangur," segir Bragi Valdimar Skúlason.

Grallararnir í Baggalúti hafa mikinn áhuga á að kaupa nýja styttu sem var gerð eftir tónlistargoðsögninni Rúnari Júlíussyni, sem lést á síðasta ári. Frétt um að styttan væri til sölu birtist í DV fyrir helgi og sagðist Kristinn Rúnar Hartmannsson hafa unnið að henni í sjö mánuði. Reykjanesbær ætlaði upphaflega að kaupa hana en hætti síðan við.

Rúnar starfaði töluvert með Baggalúti og því kemur áhugi hópsins á styttunni ekki á óvart. „Það væri ekki ónýtt að hafa þetta í höfuðstöðvum Baggalúts en samningaviðræður eru ekki komnar í gang," segir Bragi.

„Þegar svona tækifæri býðst hljótum við að skoða það enda var Rúnar stórkostlegur maður."

Bragi telur að allt of lítið hafi verið búið til af styttum eftir þjóðþekktum einstaklingum á borð við Vigdísi Finnbogadóttur, Hólmfríði Karlsdóttur og Jón Pál Sigmarsson. Þess vegna ætla Baggalútsmenn að stökkva á Rúnars-styttuna, hafi þeir efni á henni. „Það er skandall að Reykjanesbær skuli ekki vera búinn að kaupa hana. Við munum leita allra leiða til að ná henni. Þegar við verðum komnir með Rúnar vantar okkur bara þrjá upp á til að vera komnir með alla Hljómana eða bara helminginn af GCD. Þetta er fjárfesting til framtíðar." - fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.