Lífið

Föðurland vort hafið

myndlist Áhöfn eftir Hrafnkel Sigurðsson er eitt verkanna á sýningu sem helguð er hafinu í Hafnarborg.
Mynd/Hafnarborg/hrafnkell Sigurðsson
myndlist Áhöfn eftir Hrafnkel Sigurðsson er eitt verkanna á sýningu sem helguð er hafinu í Hafnarborg. Mynd/Hafnarborg/hrafnkell Sigurðsson

Í gær var ný samsýning opnuð í Hafnarborg helguð hafinu í myndlist. Sýningin nýtur stuðnings Hafnarfjarðarhafnar sem nú fagnar 100 ára afmæli sínu.

Lífróður - Föðurland vort hálft er hafið, kalla sýningarstjórarnir safnið en þar eru verk eftir tæplega þrjátíu listamenn sem endurspegla hafið á ýmsan hátt. Mörg verkanna eru ný, sum hafa ekki áður verið sýnd hérlendis en flest eru þau frá síðustu tíu árum. Hér er á ferðinni áhugaverður hópur listamanna á ýmsum aldri og undrar ókunnugan hversu margir listamenn af yngstu kynslóðinni kjósa hafið sem efnivið. Sýningarstjórar eru þau Dorothée Kirch og Markús Þór Andrésson.

Í tengslum við sýninguna standa Þjóðfræðistofa og Kvikmyndasafn Íslands að málþingi og kvikmyndasýningum sem tengjast efninu. Verður kvikmyndadagskráin samsett af kvikmyndum sem tengjast sjósókn og hafinu en þær verða í Bæjarbíói: sjá www.kvikmyndasafn.is.

Kveikja sýningarinnar var sú sjálfsmynd sem birtist í orðræðu Íslendinga í kjölfar efnahagshrunsins síðastliðið haust þegar myndlíkingar sem tengdust hafinu urðu áberandi. Gripið er til myndlíkinga úr sjómannamáli þegar eitthvað bjátar á og aðstæður verða óvæntar og illskiljanlegar.

Heiti sýningarinnar, Lífróður, vísar orðrétt til hafs og sjómennsku en nú á tímum er hugtakið fyrst og fremst notað í yfirfærðri merkingu í daglegu máli.

Titillinn Föðurland vort hálft er hafið er sóttur í sálm Jóns Magnússonar (1896-1944).

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.