Innlent

Hefði kosið eins og varamaðurinn

Björn Valur gíslason Er kominn í frí frá þingstörfunum og heldur til veiða í dag.
Björn Valur gíslason Er kominn í frí frá þingstörfunum og heldur til veiða í dag.

Við upphaf hins sögulega þingfundar á fimmtudag þegar greidd voru atkvæði um aðildarumsókn að Evrópusambandinu upplýsti þingforseti að Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, hefði tilkynnt forföll og kallað til varamann í sinn stað.

„Ástæðan er sú að ég er að fara á sjó," sagði Björn Valur í samtali við Fréttablaðið sem fyrir vikið varð af atkvæðagreiðslunum og tekur ekki þátt í þingstörfunum næstu tvær vikurnar. „Það var löngu ákveðið að ég færi út á þessum degi og þá reiknaði ég með að þetta ESB-mál yrði löngu búið og reyndar Icesave-málið líka."

Bjarkey Gunnarsdóttir, varamaður Björns Vals, kaus gegn breytingartillögum stjórnarandstæðinga og með tillögu ríkisstjórnarinnar. Björn Valur segir að engu hefði breytt þó hann hefði verið við atkvæðagreiðsluna; hann hefði kosið eins og Bjarkey.

Björn Valur hefur um árabil verið skipstjóri á Kleifarberginu frá Ólafsfirði en fékk tímabundið leyfi frá þeim störfum eftir að hann var kjörinn á þing í apríl. „Þetta verður síðasta sjóferðin í bili. Ég geri svo upp hug minn um hvort ég hætti endanlega þegar þar að kemur." Kleifarbergið var við úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg í síðustu sjóferð en skipstjórinn átti allt eins von á að fara á bolfiskveiðar að þessu sinni. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×