Erlent

Rússar lána Venesúelamönnum fyrir vopnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hugo Chavez.
Hugo Chavez.

Rússar hafa fallist á að lána Venesúelamönnum rúmlega tvo milljarða dollara til vopnakaupa.

Tæplega 100 skriðdrekar og öflugt eldflaugavarnakerfi er á innkaupalistanum hjá Hugo Chavez, forseta Venesúela, sem er nýkominn heim frá Moskvu en þar sat hann við samningaborðið í síðustu viku. Útkoman úr þeirri för er tveggja milljarða dollara lán frá Rússum sem gerir Chavez kleift að vígbúast rækilega en hann hefur ekki farið í neinar grafgötur með þá kenningu sína að Bandaríkjamenn ætli sér að ráðast á Venesúela með það fyrir augum að komast yfir olíulindir landsins.

Sumir halda því þó fram að þetta sé hreinn fyrirsláttur og Chavez sé í raun að búa sig undir átök við önnur ríki í rómönsku Ameríku en stirt hefur verið á milli hans og stjórnvalda í Kólumbíu undanfarið vegna þeirrar ákvörðunar Kólumbíumanna að hleypa bandarískum hermönnum inn í landið til að berjast við fíkniefnasmyglara og skæruliða. Stefna Bandaríkjamanna í utanríkismálum hefur löngum verið Chavez þyrnir í augum og hefur hann Bandaríkjamenn grunaða um að lauma hermönnum til Kólumbíu undir fölsku flaggi og séu þeir í raun staddir þar til að undirbúa árás á Venesúela.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×