Lífið

Sólbrúnir með glænýja plötu

Baggalútur í Winnipeg í Manitoba síðastliðið vor í heimsókn sinni á slóðir Íslendinga. 
mynd/gúndi
Baggalútur í Winnipeg í Manitoba síðastliðið vor í heimsókn sinni á slóðir Íslendinga. mynd/gúndi

Baggalútur er kominn aftur á stjá eftir sumarfrí með nýja plötu í farteskinu, Sólskinið í Dakóta, og stútfulla heimasíðu af fréttatengdu gríni.

„Við erum bara kátir. Við erum búnir að sóla okkur á Tortóla í allt sumar og erum oðnir sólbrúnir og sætir,“ segir Bragi Baggalútur.

Nóg hefur verið um að vera í þjóðmálunum hér á landi undanfarið og Baggalútsmenn ætla að tækla þau eins og þeim einum er lagið. „Við erum upp fyrir haus í skít að reyna að vinna okkur út úr þessu. Það stoppar ekki síminn á ritstjórnarskrifstofunni af fólki sem vill létta á sér. Við ætlum að reyna að hreinsa úr fjósinu,“ segir Bragi.

Platan Sólskinið í Dakóta, sem kemur út næsta föstudag, hefur að geyma ellefu hressileg lög eftir Braga við texta vestur-Íslendingsins K.N., eða Kristjáns Níels Júlíus. „Hann var Baggalútur þeirra vestur-Íslendinga fyrir hundrað árum síðan. Hann var afskaplega drykkfelldur og hress,“ segir hann.

Platan var gerð í tilefni af heimsókn Baggalúts í Íslendingabyggðir í Kanada og í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum í vor. „Það var ólýsanlegt að koma þarna og sjá nítíu ára gamla menn sem tala reiprennandi íslensku og hafa aldrei komið út fyrir sveitina i Bandaríkjunum.“

Megas syngur í þremur lögum á plötunni og Gylfi Ægisson í einu. „Þetta eru þjóðargersemar,“ segir Bragi og minnist einnig á góða frammistöðu gamalla Fóstbræðra í lokalagi plötunnar, Ísland, ég elska þig. Framundan hjá Baggalúti eru tónleikar á Ingólfstorgi í kvöld og síðan eru útgáfutónleikar fyrirhugaðir í byrjun september. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.