Lífið

Framleiddi plötu í tilefni stórafmælis foreldra sinna

Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og félagar í Heiðurspiltum syngja lög af plötunni í afmæli Geirs Zoega.
Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og félagar í Heiðurspiltum syngja lög af plötunni í afmæli Geirs Zoega.

„Ég er búin að fylgjast með Sigríði Thorlacius í nokkur ár og langaði að gera eitthvað skemmtilegt með henni,“ segir Ragnhildur Zoega, verkefnastjóri Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.

Hún gerði sér lítið fyrir og fékk Sigríði, söngkonu Hjaltalíns, og hljómsveitina Heiðurspilta til að taka upp plötu með lögum Jóns Múla Árnasonar í tilefni stórafmælis foreldra sinna, Sigríðar og Geirs Zoega. Tveir af meðlimum Heiðurspilta eru þeir Sigurður Guðmundsson úr Hjálmum og Guðmundur Óskar Guðmundsson úr Hjaltalín og því ljóst að engir aukvisar eru þar á ferðinni.

„Pabbi er mikill djassgeggjari og er hrifinn af Jóni Múla. Þá vaknaði hugmyndin að gera eitthvað skemmtilegt með þeim,“ segir Ragnhildur, sem þekkir Sigríði í gegnum dóttur sína. Einnig hefur hún fengið Sigríði til að syngja á ráðstefnum fyrir erlenda gesti tengdum starfi sínu.

Foreldrar Ragnhildar fengu fyrstu eintökin af plötunni afhent í áttræðisafmæli pabba hennar síðastliðinn fimmtudag og að sjálfsögðu tóku Sigríður og Heiðurspiltarnir lagið við góðar undirtektir. Foreldrarnir, sem höfðu ekki hugmynd um verkefnið, voru himinlifandi. Sömuleiðis þótti þeim gaman að sjá gamlar partímyndir af sjálfum sér frá sjötta áratugnum framan á plötunni. „Ég var svolítið smeyk um að þau yrðu ekki glöð en svo var þetta bara mjög skemmtilegt,“ segir Ragnhildur. Platan sjálf kemur í búðir 9. september, sem er einmitt 75 ára afmælisdagur móður hennar. Þá verða haldnir útgáfutónleikar í Austurbæ.

Ragnhildur kostaði sjálf gerð plötunnar á vegum fyrirtækis síns Skrjóða en útgáfufyrirtækið Borgin annast dreifingu. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála. „Þetta er mitt fyrsta verkefni. Það er mjög skemmtilegt að vinna með svona frábærum listamönnum,“ segir hún.

freyr@frettabladid.is

ragnhildur zoega Ragnhildur framleiddi plötu og gaf foreldrum sínum í afmælisgjöf. fréttablaðið/heiða





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.