Innlent

Kókaínsmyglari laus úr haldi - rannsókn lokið

Gæsluvarðhald yfir manni sem handtekinn var í Leifsstöð með um 1,5 kg af kókaíni rann út í gær. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn málsins lokið og fer nú sína leið í dómskerfinu. Maðurinn er því laus úr haldi en samferðamaður hans var einnig handtekinn á sínum tíma Hann losnaði úr varðhaldi á Þorláksmessu.

Við leit í farangri mannsins fann Tollgæslan á Kelfavíkurflugvelli um 1,5 kg af kókaíni og voru mennirnir báðir handteknir í kjölfarið. Samferðamaður hans sætti sérstakri rannsókn og eftirliti lögreglu þar sem hann hafði nokkrum dögum áður flutt til landsins með fraktflugi 6 ferðatöskur en við skoðun tollgæslu kom í ljós að ein þeirra innihélt um 150 g af kókaíni, sem falið var inn í tölvuflakkara.

Var honum sleppt að lokinni röntgenrannsókn en handtekinn aftur daginn eftir þegar að hann vitjaði ferðatasknanna sem hann hafði verið skráður fyrir sem sendandi og móttakandi.

Málinu er nú lokið eins og fyrr segir en mennirnir eru báðir íslenskir og hafa komið við sögu lögreglu áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×