Innlent

Slitastjórn greiðir launin í dag

ósvaldur og álfheiður Ósvaldur Knudsen tekur Álfheiði Ingadóttur, formann viðskiptanefndar, tali en viðskiptanefnd sinnti kalli SPRON og breytti lögunum.fréttablaðið/valli
ósvaldur og álfheiður Ósvaldur Knudsen tekur Álfheiði Ingadóttur, formann viðskiptanefndar, tali en viðskiptanefnd sinnti kalli SPRON og breytti lögunum.fréttablaðið/valli

Slitastjórn SPRON er nú heimilt að borga laun starfsmanna sinna á uppsagnarfresti. Þetta var samþykkt á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum viðstaddra þingmanna. Frumvarpið, sem flutt var af viðskiptanefnd Alþingis, var afgreitt á mettíma. Var það tekið til þriggja umræðna og samþykkt á aðeins tuttugu mínútum.

„Það er ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði greitt í dag,“ segir Hlynur Jónsson, formaður slitastjórnar SPRON. Slitastjórnin taldi sér ekki heimilt að greiða út laun til starfsmanna á uppsagnarfresti þar sem lög veittu aðeins fyrirtækjum í greiðslustöðvun heimild til þess. SPRON fór aldrei í greiðslustöðvun.

„Ég býst við að þetta leysi málið,“ segir Ósvaldur Knudsen, talsmaður fyrrum starfsmanna SPRON, um lögin. Ósvaldur segir að það sé óþarfi að velta fyrir sér hvort slitastjórnin greiði launin eða ekki þar sem hann gerir ráð fyrir að þetta hafi verið lausnin sem þurfti.

„Slitastjórnin kallaði eftir lagabreytingu og ég er feginn að þingmenn hafi sinnt þessari skyldu sinni og gert það sem þurfti til að laga þetta,“ segir Ósvaldur.

- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×