Innlent

40 nemendur skráðir í skóla án starfsleyfis

Fjörutíu nemendur hafa þegar verið skráðir til náms í nýjum einkareknum grunnskóla í Reykjavík, Menntaskólanum, sem ekki hefur fengið starfsleyfi. Menntamálaráðuneytið er ekki byrjað að fjalla um leyfið. Aðstandendur skólans fá ekki lykla að væntanlegu skólahúsnæði fyrr en starfsleyfið er fengið.

Borgarstjórn samþykkti í vikunni fyrir sitt leyti að nýr einkarekinn grunnskóli gæti tekið til starfa. Þetta hefur verið gagnrýnt, meðal annars fyrir þær sakir að nemendum í Reykjavík fækki, auk þess sem mikið sé nú skorið niður hjá Borginni. Þá bárust þau tíðindi í dag að borgarstjóri teldi að skera þyrfti niður í grunnskólum Reykjavíkur á næsta ári, um sex prósent.

Menntaskólinn bíður nú heimildar menntamálaráðuneytisins, til að geta hafið störf. Samkvæmt upplýsingum þaðan, vantar enn viðunandi gögn, til þess að hægt sé að veita skólanum starfsleyfi. Formlega skoðun á málinu er ekki hafin í ráðuneytinu.

Nýi skólinn á að starfa í hluta húsnæðis gömlu heilsuverndarstöðvarinnar við Barónstíg; en að honum standa, meðal annars Ólafur Stefánsson, handboltakappi, Þorvaldur Þorsteinsson, barnabókahöfundur. Edda Huld Sigurðardóttir, sem stýrði Ísaksskóla um árabil, er skólastjóri.

Edda Huld segir að Menntaskólinn verði ekki elítuskóli. Skólagjöldin nemi um 120 þúsundum króna, sem sé ekki mikið miðað við aðra einkarekna skóla. Hæf rekstrarmanneskja sé í hópnum.

Edda Huld hafði samband við fréttastofu í kjölfar fréttarinnar. Hún furðar sig á þeim ummælum að eitthvað vanti inn í námsskránna. Hún spyr hvort ekki sé eðlilegt að láta fólk vita ef eitthvað vanti inn í námsskránna. Ekki megi gleyma sér í pólitík en Menntaskólinn hefur ekki fengið neinar athugasemdir um að eitthvað vanti í námsskrá skólans að sögn Eddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×