Innlent

Gjaldeyrisvarasjóðslánin jafn brýn nú og í nóvember

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Friðrik Már Baldursson segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virki eins og endurskoðendur á efnahagslíf Íslendinga. Mynd/ Hari.
Friðrik Már Baldursson segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virki eins og endurskoðendur á efnahagslíf Íslendinga. Mynd/ Hari.

Gjaldeyrisvarasjóðslánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum eru alveg jafn brýn núna og þau voru þegar samningurinn var gerður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember á síðasta ári. Þetta segir Friðrik Már Baldursson, hagfræðiprófessor við Háskólann í Reykjavík.

Friðrik segir að samningurinn sé nauðsynlegur Íslendingum bæði til þess að auka tiltrú erlendra aðila á íslensku efnahagslífi og til þess að gjaldeyrisviðskipti geti komist í eðlilegt horf. Ef lánin fengust ekki yrði afgangurinn af utanríkisviðskiptum að verða enn meiri sem myndi þýða enn meiri niðurskurð á fjárlögum og gengi krónunnar þyrfti að vera langt til lengri tíma. „Þannig að það er langur listi af hlutum sem hangir á spýtunni," segir Friðrik Már.

„Ef íslensk stjórnvöld halda skynsamlega á spöðunum, að þá munum við á nokkrum árum vera komin í eðlilegt ástand þar sem gjaldeyrismarkaður eru opnir og fyrirtæki og opinberir aðilar taka lán á eðlilegum kjörum. Á meðan þurfum við þennan stuðning. Þetta er einfaldlega stoðtæki í að vinna hann, segir Friðrik Már.

Friðrik bendir á að nú séu vonir um það að fá erlenda aðila inn í bankana, Íslandsbanka og Kaupþing. Það myndi létta á lánabyrgði ríkisins sem sé gríðarleg. Þá yrði aðkoma erlendra fjármálastofnana að rekstri bankanna gríðarlega mikilvæg til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. „Ég held að það sé borin von að það gerist ef þessi „stamp of approval" kemur ekki. Vegna þess að þetta er bara þannig að þarna er Alþjóðargjaldeyrissjóðurinn í hlutverki einhverskonar endurskoðenda eða einhverskonar vottunaraðila sem á að taka kerfið hérna út," segir Friðrik Már.

Ekkert liggur fyrir um það hvenær stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun taka fyrir endurskoðun á efnahagsáætluninni en það hefur staðið til að taka hana fyrir frá því í febrúar síðastliðnum. „Það er mjög slæmt að það skuli ekki vera ljóst hvenær þetta verður tekið fyrir og hvers vegna tafirnar eru. Er það vegna þess að Bretar og Hollendingar eru að draga lappirnar og eru að stoppa þetta? Eða er þetta af tæknilegum ástæðum sem það getur alveg verið?" Friðrik Már bendir á að það sé heilmikil skýrslugerð í tengslum við þessa endurskoðunina og vel megi vera að slík vinna tefji endurskoðunina.

Aðalmálið sé að það er mjög slæmt að málið skuli tefjast svona og það sé í einhverri óvissu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×