Innlent

Davíð reyndi að hrista blaðamenn af sér

Davíð Oddsson var hvergi sjáanlegur í Seðlabankanum í morgun en þar komu tæplega eitthundrað mótmælendur saman til að krefjast þess að hann víki burt. Davíð sýndi snilldartakta þegar hann hristi blaða og fréttamenn af sér við Landspítalann.

Mótmælendurnir við Seðlabankann skiptu liði í morgun. Einn hópur stóð vaktina við aðalinngang bankans en hinn vaktaði bílakjallarann.

En maðurinn sem allt snérist um var hvergi sjáanlegur. Upp úr klukkan 10 fóru mótmælendur að missa þolinmæðina og það fækkaði jafnt og þétt í hóp þeirra. Um það leiti fréttum að því að Davíð væri í Vestubænum og ákváðum því að reyna að ná tali af honum þar. Við mættum honum þegar hann ók út af bílstæði við Grandaveg þar sem okkur skilst móðir hans búi en til þess að geta spurt hann út í bréfasamskipti hans við Jóhönnu Sigurðardóttir keyrðum við í humátt eftir honum alla leið inn á bílastæði Landspítalans við Hringbraut.

Þegar Davíð kom út úr bílnum spurði blaðamaður DV sem þar var á svæðinu hann spurningar. Davíð brást hinn versti við og sagðist vera á leiðinni í læknisskoðun. Því næst gekk Davíð inn um aðalinngang spítalans.

En svo virðist sem hann hafi alls ekki verið á leiðinni í læknisskoðun heldur hafi hann ætlað að losa sig við fréttamenn og spurningar þeirra.

Því um mínútu síðar sást Davíð ganga út um dyr sem snúa út að Eiríksgötu. Þar beið hans nefnilega annar bíll og einkabílstjóri frá Seðlabankanum.

Bíllinn beið bakdyramegin eftir Davíð. Inn í honum sat einkabílstjóri. Þegar Davíð kom auga á að fréttamenn höfðu orðið hans varir snerist hann á hæli og fór inn á spítalann aftur.

Skömmu síðar bárust svo fréttir af því að Davíð væri kominn inn í Seðlabanka en þá voru heldur engir mótmælendur til að taka á móti honum. Davíð hefur undanfarnar vikur ítrtekað hafnað ósk fréttastofu um viðtal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×