Innlent

Guðjón vill vera formaður áfram

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
„Ég hafði ekki hugsað mér annað. En vika er langur tími í pólitík," sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, spurður hvort hann muni gefa kost á sér sem formaður á landsþingi flokksins um miðjan mars. Guðjón segist ekki hafa tekið ákvörðun um annað en að gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku og formennsku. Hann hræðist ekki slag um formannsembættið.

„Jón hefur ekkert talað um þetta við mig"

Guðjón hefur lítið um brotthvarf Jóns Magnússonar að segja, en Jón tilkynnti í upphafi þingfundar í dag að hann hefur sagt skilið við Frjálslynda flokkinn.

„Jón hefur ekkert talað um þetta við mig." Í lok þingflokksfundar í dag afhenti Jón fyrrum samstarfsmönnum sínum bréf þar sem hann skýrði frá ákvörðun sinni. „Jón gaf ekki kost á neinni umræðu," segir Guðjón.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun hver tekur við formennsku í þingflokknum við brothvarf Jóns sem kjörinn var þingflokksformaður fyrir fáeinum mánuðum  í stað Kristins H. Gunnarssonar.

Þingmaður frá 1999

Guðjón hefur verið formaður Frjálslynda flokksins frá árinu 2003 en hann var fyrst kjörinn á þing í kosningunum 1999. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1991 til 1995.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×