Innlent

Leyfir takmarkaðar loðnuveiðar í rannsóknarskyni

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur nú ákveðið að heimila takmarkaðar loðnuveiðar íslenskra skipa í rannsóknaskyni. Um er að ræða 15.000 tonna kvóta.

Í reglugerðinni er kveðið á um að stjórn og skipulag veiðanna skuli framkvæmt undir stjórn og í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina. Fram hefur komið að útgerðarmenn og skipstjórar loðnuskipanna eru vongóðir um að með því náist að finna nægjanlegt magn af loðnu þannig að unnt verði að gefa út aflamark í loðnu.

Í reglugerðinni segir að allt að 4 veiðiskip mega vera við leit hverju sinni næstu 21 sólarhringa frá gildistöku hennar 10. febrúar.

Í tilkynningu um málið segir að samkvæmt aflareglu sem lengi hefur verið notuð í loðnu er miðað við að skilja eftir a.m.k. 400 þúsund tonn til hrygningar ár hvert. Í nóvember og desember sl. mældi Árni Friðriksson um 270 þúsund tonn af tveggja og þriggja ára loðnu (nú þriggja og fjögurra ára) út af norðvestanverðu landinu.

Í byrjun árs sendu útgerðirnar loðnuskip með Árna til leitar og mælinga og voru skipin búin samskonar tækjabúnaði og rannsóknaskipið þannig að unnt var að nýta þau gögn sem þau söfnuðu til mælinga. Um 214 þúsund tonn af þriggja og fjögurra ára loðnu mældust í þessari atrennu, aðallega út af norðausturlandinu.

Árni Friðriksson er nú um það bil að ljúka fjórðu atrennu að mælingu sem því miður gefur ekki nægjanlega góðar vonir, en í þriðju atrennunni á norður leiðinni yfir aðal göngusvæðið. Alls hafa nú mælst um 385.000 tonn.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×