Lífið

Heppin að eiga góða mömmu

Segir skemmtilegra að hanna á karlmenn en konur því karlatíska sé óplægður akur enn.  fréttablaðið/anton
Segir skemmtilegra að hanna á karlmenn en konur því karlatíska sé óplægður akur enn. fréttablaðið/anton

Sigrún Halla Unnarsdóttir lauk nýverið BA-námi í fatahönnun við Designskolen Kolding í Danmörku og leggur nú stund á meistaranám við sama skóla. Útskriftarverkefni hennar vakti nokkra athygli, en Sigrún Halla valdi að hanna skrautlegar flíkur á karlmenn. Innblásturinn sótti hún til þriggja vinkvenna sinna með það að markmiði að skapa hinn fullkomna mann fyrir hverja og eina.

„Í þessi þrjú ár sem ég hef lagt stund á fatahönnun stóð ég mig oft að því að hanna frekar flíkur á karlmenn heldur en konur. Ég held að það sé vegna þess að það er svo margt sem enn á eftir að gera á karla og það er auðvelt að brjóta reglur og koma með eitthvað nýtt,“ segir Sigrún Halla.

Aðspurð segist hún sauma allt sjálf, en hún hafi þó fengið ómetanlega hjálp frá móður sinni þegar kom að því að sauma flíkurnar fyrir útskriftarverkefnið.

„Það er mjög takmörkuð saumakennsla sem fer fram í náminu og saumakunnátta var til dæmis ekki ein af kröfunum fyrir inngöngu í skólann. Ég er bara svo heppin að eiga mjög handlagna mömmu sem kenndi mér allt sem ég kann og sem kom alla leið til Kolding og hjálpaði mér með útskriftarverkefnið.“ Fatalínan sem Sigrún Halla hannaði hefur vakið jákvæð viðbrögð meðal fólks en hún segir flíkurnar þó ekki til sölu. „Ég vil gjarnan koma þessu í sölu en ég hef einfaldlega ekki haft tíma til að sauma fleiri flíkur enn sem komið er,“ útskýrir hún.

Sigrún Halla segir framtíðina enn óráðna, en segir drauminn að geta unnið sem fatahönnuður hér á landi. „Mér líður mjög vel á Íslandi og hér er mikið að gerast bæði í fatahönnun og hönnun almennt þannig ég vona að ég geti unnið hér í framtíðinni, en svo veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“ - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.