Lífið

Sjónvarpskokkur stýrir þrautakóngi í Argentínu

Friðrika Hjördís verður stjórnandi hinnar íslensku útgáfu af Wipeout en 120 Íslendingar fljúga út í þremur hollum og reyna fyrir sér í þessum þrautakóngi. Mynd/Arnþór
Friðrika Hjördís verður stjórnandi hinnar íslensku útgáfu af Wipeout en 120 Íslendingar fljúga út í þremur hollum og reyna fyrir sér í þessum þrautakóngi. Mynd/Arnþór

„Mér líst vel á þetta, hef horft á þættina með öðru auganu en krakkarnir mínir hafa skemmt sér konunglega yfir þessu," segir Friðrika Hjördís Geirsdóttir sem verður kynnir í íslensku útgáfunni af Wipeout eða Þrautakóngi. Wipeout eru að verða eitt helsta æðið í sjónvarpsbransanum um allan heim en sjónvarpsstöðvar frá yfir tuttugu löndum hafa gert slíka þætti.

Friðrika hefur hingað til verið þekktust fyrir matreiðslu sína á skjánum og í tímaritum en að þessu sinni fær hún það verðuga verkefni að kokka upp skondnar og skemmtilegar athugasemdir um gengi keppenda í brautinni hverju sinni. Henni til halds og traust verða síðan stórvinirnir Jói & Simmi sem hafa töluvert meiri reynslu af stjórnun stórra sjónvarpsþátta, samanber Idol-stjörnuleit.

Friðriku líst vel á ferðalagið langa til Argentínu þótt henni sé ekkert sérstaklega vel við að vera svona lengi í burtu frá börnunum sínum. „Nei, en þeir eru í góðum höndum. Það verður bara gaman að koma til þeirra aftur þegar þetta er búið," segir Friðrika og bætir því að ferðalagið verði kannski til þess að hreinsa hugann af öllu krepputalinu sem hefur svifið yfir vötnum hér á landi í tæpt ár. „Það fæðist voðalega lítið fallegt í svona neikvæðu umhverfi, þetta hefur vonandi líka góð áhrif á þá sem taka þátt. Þeir komi til baka fullir eldmóðs til að takast á við veturinn."

Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir undirbúning fyrir þættina vera í fullum gangi. „Við erum að fljúga út 120 manns í þremur hollum, borga fyrir þau fæði, gistingu og flug, þetta verður bara alveg rosalegt," segir Pálmi en skráning hefst klukkan þrjú í dag. Að sögn Pálma verður fyllsta öryggis gætt af heimamönnum, læknir er á svæðinu og svona mætti lengi telja. „Þegar menn eru búnir að vera lengi í brautinni verða þeir stundum þreyttir í fótunum og geta snúið sig," segir Pálmi en bendir jafnframt á að ekki hafa átt sér stað nein alvarlega slys.

Keppendum gefst ekki kostur á að fara í generalprufu í brautinni heldur verður þeim bara ýtt beint út í ævintýrið.

Verðlaun fyrir sigur verða síðan ekki aðalatriðið, segir Pálmi. „Nei, við ætlum ekkert að leggja neitt sérstaklega upp úr þeim, auðvitað verður eitthvað fyrir sigurvegarann en þetta snýst aðallega um þetta ævintýri, að taka þátt í þrautakóngi í Argentínu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.