Innlent

Þrettán ára stúlka ók 185 kílómetra í svefni

svefn Oftast gengur fólk í svefni í um fimm til tíu mínútur, að sögn sálfræðings. Ólíklegt er að hægt sé að ganga í nokkrar klukkustundir í senn.
fréttablaðið/getty
svefn Oftast gengur fólk í svefni í um fimm til tíu mínútur, að sögn sálfræðings. Ólíklegt er að hægt sé að ganga í nokkrar klukkustundir í senn. fréttablaðið/getty
Þrettán ára stúlka, sem tók jeppabifreið ófrjálsri hendi í Húsafelli aðfaranótt miðvikudags, telur sig hafa ekið bifreiðinni í svefni alla leið frá Húsafelli til Keflavíkur eða 185 kílómetra. Endaði förin á því að hún keyrði út í kant.

Stúlkan dvaldi í sumarhúsi í Húsafelli, fór yfir í annað sumarhús og tók jeppann. Skildi hún eftir kveðjuna: „Flott hús. Kveðja, næturröltarinn.“ Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglunni í Borgarnesi.

Júlíus K. Björnsson, sálfræðingur og forstöðumaður Námsmatsstofnunar, sem vann við mál tengd svefntruflunum hjá Landspítalanum í 15 ár, segir þetta mál stórundarlegt. „Að þetta ástand standi í nokkra klukkutíma gengur engan veginn. Oftast eru þetta einhverjar fimm til tíu mínútur.“

Sofi manneskja eðlilega fer hún í gegnum nokkur svefnstig og skiptist á djúpur svefn og draumsvefn. Hver hringur tekur um 90 mínútur. Svefnganga á sér venjulega stað fyrri part nætur.

„Ef hún hefur sofið eðlilega þá hefði hún líklega keyrt út af þegar hún hefði farið í draumsvefn. Ég veit hins vegar ekkert um tilvik ið og það gæti verið að hún fái bara djúpan svefn. Ég á þó afar bágt með að trúa því,“ segir Júlíus.

Guðrún Guðmundsdóttir, móðir 29 ára gamallar konu sem gekk mikið í svefni á yngri árum, segir mögulegt að þessi saga geti verið sönn. Þó sé það ólíklegt ef stelpan á enga forsögu um svefngöngu. Nokkrum sinnum kom fyrir að dóttir hennar gekk í svefni en ekkert hafi jafnast á við þetta:

„Einu sinni þurfti ég að fara út á land og systir hennar passaði hana. Síminn hringdi um miðja nótt og þá höfðu hjón fundið hana úti. Þau spurðu hana hvað hún væri að gera og hún sagðist vera að leika sér.

Fólkið átti heima rétt hjá okkur og könnuðust við okkur og fóru því með hana heim til sín og gáfu henni kakó og brauð. Síðan ákváðu þau að hringja og athuga hvað væri í gangi. Hin dóttir mín svaraði og sagði þeim að systir sín væri líklega sofandi. Þá hafði þetta varað í þrjár til fjórar klukkustundir og hún mundi ekkert,“ segir Guðrún.

Svefngangan hætti smám saman en stundum gengur hún enn í svefni. „Eiginmaður hennar sagði mér að hún gengi stundum í svefni þegar hún er undir álagi. Þá er það yfirleitt bara fram á gang og stendur stutt yfir,“ segir Guðrún.

vidirp@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×