Innlent

Þráinn Bertelsson: Ég veit ekki hvernig þessi þingflokkur á að virka í framtíðinni

Valur Grettisson skrifar
Þráinn Bertelsson.
Þráinn Bertelsson.

„Þetta hefur gífurlega neikvæð áhrif á trúverðugleika og ímynd Borgarahreyfingarinnar," segir Þráinn Bertelsson, rithöfundur og þingmaður Borgarahreyfingarinnar um félaga sína í þingflokknum sem ákváðu á síðustu stundu að kjósa gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður við ESB.

Borgarahreyfingin hótaði í gærkvöldi að kjósa gegn tillögu ríkisstjórnarinnar ef Icesave-málið yrði ekki tekið af dagskrá. Þeir stóðu svo við orðin í atkvæðagreiðslunni sem fram fór í dag þar sem tillaga ríkisstjórnarinnar var þó samþykkt að lokum.

Þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar kusu gegn tillögunni en Þráinn kaus með.

„Þetta var mikið áfall," segir Þráinn sem var ekki viss um að félagar hans í flokknum myndu standa við hótunina. Hann segir það versta vera að félagar hans í þingflokknum standi ekki við orð sín.

Spurður hvað taki nú við hjá þingflokknum svarar hann: „Ég veit ekki hvernig þessi þingflokkur á að virka í framtíðinni."

Þráinn segist þó ekki ætla að hætta.

„Eins og þetta snýr að mér þá er þetta ekki spurning um að ég hætti, ég er á mínum stað og framfylgdi stefnu flokksins eftir eigin samvisku en það gerðu hinir þrír ekki," segir Þráinn ómyrkur í máli.

Hann segir það aðferð gömlu stjórnmálaflokkanna að svíkja kosningaloforð og segir flokkinn hafa verið lausan við það hingað til. Hann segir þetta hefð sem honum hugnist ekki.

Spurður hvort Borgarahreyfingin hafi í reynd lofað því að tryggja brautargengi ESB í kosningabaráttunni fullyrði Þráinn að svo hafi verið.

Spurður hvort honum sé raunverulega vært innan Borgarahreyfingarinnar í ljós þeirra gagnrýni sem hann setur fram á samflokksmenn sína segir Þráinn: „Það er ekki mitt að hætta. Það var ekki ég sem hljóp frá borði. Það er alveg á hreinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×