Innlent

Fundu ekki nægilega mikið af loðnu til að leyfa veiðar

Í nótt lauk mælingu á loðnustofninum þar sem þrjú veiðiskip voru notuð til mælinga. Ekki fannst nægilegt magn af loðnu til að hægt væri að leyfa veiðar á henni að svo stöddu.

Það voru skipin FAXI RE, LUNDEY NS og BÖRKUR NK sem tóku þátt í leitinni. Öll höfðu skipin mælitæki sem eru sambærileg við þau tæki sem eru um borð í rannsóknaskipum og því hægt reikna út magn loðnu byggt á þeim gögnum.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun segir að bráðabirgðaútreikningar sýna að alls mældust 293 þúsund tonn af loðnu, þar af um 270 þúsund tonn af þriggja og fjögurra ára loðnu. Er það mjög svipað magn og mældist í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar í nóvember-desember á síðasta ári.

Aflaregla við loðnuveiðar byggir á að skilja 400 þúsund tonn eftir til hrygningar. Ljóst er að ofangreindar mælingar eru undir því magni og því ljóst að Hafrannsóknastofnunin leggur til að loðnuveiðar verði ekki hafnar að svo stöddu.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er áfram við mælingar á loðnustofninum og mun líklega ljúka annarri yfirferð yfir rannsóknasvæðið á sunnudagskvöld. Að því loknu mun rannsóknaskipið verða við framhalds athuganir og loðnuleit á næstu vikum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×