Hönnunarfyrirtækið ELM Design frumsýnir vor- og sumarlínu fyrir árið 2010 á tískuviku í París og New York í næsta mánuði. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í tíu ár og selur hönnun sína í um níutíu verslunum víðs vegar um Bandaríkin og yfir fimmtíu verslunum í Evrópu, þar á meðal í Selfridges, Browns og Liberties í London.
„Þetta er lína sem við vorum að ljúka við fyrir stuttu. Í vetur vorum við mikið með græna tóna í hönnun okkar og við höfum unnið vor- og sumarlínuna svolítið út frá þessu og haldið okkur við græna og út í gula tóna,“ segir Erna Steina Guðmundsdóttir, einn eigenda ELM Design.
Aðspurð segir Erna það ekki vera erfitt verk að hanna flíkur ár fram í tímann, heldur sé það orðið að vana eftir öll þessi ár. „Þetta var snúið í fyrstu en nú erum við orðnar vanar að vinna svona langt fram í tímann.
Kosturinn er að við erum alltaf í réttri árstíð, við hönnuðum sumarlínuna fyrir næsta ár núna í sumar og í haust förum við af stað með að hanna vetrarlínuna fyrir árið 2010 þannig það er auðvelt að finna innblástur.“ - sm