Lífið

Bandarísk fegurðardís heilluð af Íslendingasögum

Fegurðardrottningin og háskólaneminn Carrie Roy stundaði nám í íslenskum þjóðsögum við Háskóla Íslands.
fréttablaðið/arnþór
Fegurðardrottningin og háskólaneminn Carrie Roy stundaði nám í íslenskum þjóðsögum við Háskóla Íslands. fréttablaðið/arnþór

Carrie Roy, fyrrverandi Ungfrú Norður-Dakóta og sjónvarpsstjarna í Boston, var nýverið í heimsókn hér á landi hjá vinum sínum sem hún kynntist er hún stundaði nám í íslenskum þjóðsögum við Háskóla Íslands.

Carrie leggur núna stund á doktorsnám í þjóðsagnfræði við Háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum og ákvað að líta við á Íslandi áður en hún færi á ráðstefnu í Svíþjóð. Hún hefur rannsakað Íslendingasögurnar og íslensku þjóðsögurnar og heillast mjög af þeim. „Það eru ekki mörg tímabil í miðaldar-sögunni sem eru jafn vel skrásett og Íslendingasögurnar,“ segir Carrie, sem hefur lifað viðburðaríku lífi.

„Ég ólst upp á búgarði í Norður-Dakóta og hafði alltaf mjög gaman af íþróttum. Ég var góð í kringlukasti og kúluvarpi og mér voru boðnir skólastyrkir í mörgum skólum. Ég valdi Harvard og þar lagði ég stund á höggmyndalist og ljósmyndun. Síðan gerði ég verkefni um norræna menningu í miðvesturhluta Bandaríkjanna því mér fannst hún mjög áhugaverð,“ segir Carrie. „Í Norður-Dakóta ólst ég upp við norræn menningar-áhrif, bæði norsk og sænsk en líka þýsk. Í bænum sem ég ólst upp í bjó líka fólk af íslenskum uppruna.“

Þegar Carrie var í Harvard og bjó í Boston sótti hún um starf í sjónvarpsþættinum Knock First, sem fjallaði um breytta hönnun á herbergjum unglinga. Kenndi hún unglingum að nota rafmagnsverkfæri, sem var nokkuð undarleg reynsla að hennar mati. „Við tókum upp um 65 þætti og unnum í tólf til átján klukkustundir á dag. Þetta var mikil pressa en líka mjög gaman. Eftir það ákvað ég að fara aftur í skóla og læra.“

Fleira hefur drifið á daga hennar því hún tók þátt í keppninni Ungfrú Norður-Dakóta um aldamótin í von um að eiga betri möguleika á skólastyrk. „Ég var kringlukastari og kúluvarpari og hafði ekki mikinn áhuga á fegurðarsamkeppnum. Ég var frekar undrandi þegar ég vann keppnina,“ segir hún. Næst var komið að keppninni Ungfrú Ameríka. „Ég komst ekki á topp tíu en ég var kjörin svalasta stúlkan af einu dagblaði. Þeim fannst svo áhugavert að ég stundaði ólympískar lyftingar og að uppáhaldsbíómyndin mín væri Gladiator en ekki Gone with the Wind,“ segir hún og hlær.

Að námi loknu hefur Carrie sett stefnuna á að verða prófessor í þjóðsagnfræði og norrænni miðaldasögu. Ljóst er að þarna er heldur betur fjölhæf stúlka á ferðinni sem mun eiga nóg af sögum í pokahorninu til að segja barnabörnum sínum í framtíðinni.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.