Lífið

Berjasprettan gerist vart betri

Örn, lengst til vinstri, ásamt fríðum hópi listamanna á Berjadögum. 
Mynd/Ingibjörg
Örn, lengst til vinstri, ásamt fríðum hópi listamanna á Berjadögum. Mynd/Ingibjörg

Berjadagar á Ólafsfirði hefjast í kvöld. Örn Magnússon skipuleggjandi hlær þegar blaðamaður spyr hann hvort hátíðin sé í keppni við Menningarnótt. „Ég sagði nú einhvern tíman að það yrði nú að vera eitthvað fyrir norðan líka svo landið sporðreistist ekki, en nei, það er nú eitthvað sem við keppum ekki við. En við eigum okkar sess hérna og fólk hefur komið hérna alls staðar af á landinu til að vera á Berjadögum.“

Hátíðin byrjar á tónleikum við kertaljós. „Það verður fluttur flautukvartett eftir Haydn sem Melkorka Ólafsdóttir blæs og Bragi Bergþórsson syngur ljóð eftir Mendelssohn. Á laugardaginn er opinn markaður milli eitt og fimm, líklega í Guðmundarhúsi við Strandgötu. Þar verður boðið upp á berjaafurðir, sultur, saftir og smökkun. Á sama tíma er opið hús hjá myndlistarmönnum bæjarins, þeim Guðrúnu Þórisdóttur, Kristjönu Sveinsdóttur og Hólmfríði Arngrímsdóttur. Á þessum stöðum verða Spilmenn Ríkínís að leika á fornhljóðfæri sín, þeir fara á milli og uppákomur verða. Um kvöldið verða tónleikar í kirkjunni þar sem Jón Þorsteinsson syngur sálma sem hann lærði ungur af afa sínum á lofti kirkjunnar. Svo eru tónleikar á sunnudaginn í kirkjunni undir yfirskriftinni Allabaddarí, með franskri tónlist. Hátíðin endar á léttu nótunum á sunnudagskvöldið.“

Berjadagar eru haldnir í ellefta sinn. „Það hefur alltaf verið að aukast aðsóknin. Það var nú ekki mikil aðsókn til að byrja með en síðan hefur þetta verið að vinna sér sess og var allt fullt í fyrra á öllum viðburðum þannig að ég er bjartsýnn núna. Berjaspretta er víst með því betri sem gerist í ár.“ - kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.