Innlent

Líklegt að þorskkvótinn klárist

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Búið er að veiða um tvo þriðju þess strandveiðiþorskkvóta sem gefinn var út fyrir júlímánuð í Norðvesturkjördæmi. Líkur eru á að þorskkvóti sem duga átti til loka ágústmánaðar verði uppurinn í næstu viku.

Ný lög um frjálsar strandveiðar tóku gildi 25. júní síðastliðinn. Fiskistofa hafði vart undan við að gefa út leyfin og eru þau orðin hátt í 400. Í Norðvesturkjördæmi er leyfilegt aflamark í þorski fyrir júlí rúmlega 800 tonn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þegar verið veitt um 550 tonn af þorski á svæðinu. Það lítur því út fyrir að leyfilegt aflamark í júlí klárist mun fyrr en áætlað var.

Sjómaður á svæðinu sagði í samtali við fréttastofu, að þorskkvótinn sem duga átti til loka ágústs, klárist að öllum líkindum í næstu viku. Um 100 tonn af þorski hafi verið landað daglega þá daga sem heimilt sé að veiða.

Fyrir júlí og ágúst er leyfilegt aflamark á þroski um 1200 tonn. Það er því ljóst að róðradagar í ágúst verða ekki margir ef fram heldur sem horfir.

Samkvæmt lögum um frjálsar strandveiðar er heimilt að veiða fimm daga vikunnar, vera úti í 14 tíma í senn og veiða að hámarki 800 kíló í hverri veiðiferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×