Lífið

Japönsk sýn á íslenskt landslag

Ariko segir að Ísland minni hana mikið á æskuslóðirnar í Kyoto.fréttablaðið/stefán
Ariko segir að Ísland minni hana mikið á æskuslóðirnar í Kyoto.fréttablaðið/stefán

Bók sem inniheldur íslenskar landslagsmyndir eftir japanska ljósmyndarann Ariko er nú fáanleg í bókabúðum hér á landi. Ariko, sem er mjög eftirsóttur ljósmyndari í heimalandi sínu og hefur unnið fyrir tímarit á borð við ID Magazine, er stödd hér á landi þess dagana við tökur á japönsku tónlistarmyndbandi.

Ariko hefur heimsótt Ísland reglulega síðastliðin átta ár og eru myndirnar sem prýða bókina allar teknar á ferðum hennar um landið. „Ég bjó í fjögur ár í New York-borg og var í ljósmyndanámi við Parsons-háskólann. Þar kynntist ég nokkrum Íslendingum sem buðu mér með sér í heimsókn til Íslands. Þetta var árið 2002 og upp að því hafði ég alfarið einbeitt mér að portrett-ljósmyndun. Það breyttist þó þegar ég kom hingað og upplifði náttúrufegurðina hér. Ég hef ferðast mikið í gegnum árin vegna vinnunnar og kynnst ólíkum menningarheimum en þegar ég kom til Íslands þá fannst mér eins og ég væri í fyrsta sinn hluti af heiminum og jörðinni en ekki einhverri ákveðinni menningu.“

Ariko segir margt við Ísland minna sig á æskuslóðirnar í Kyoto og segir hún japanska lystigarða vera eins og smækkaða mynd af íslenskri náttúru. Bókin, sem á íslensku heitir Sól, kom út í Japan fyrir ári og hefur vakið mikla athygli þar og nú hefur Ariko ákveðið að deila Íslandssýn sinni með landanum. Hægt er að nálgast bókina í verslunum Pennans og í bókabúðinni Útúrdúr við hliðina á Nýlistasafninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.