Innlent

Óskar Össuri til hamingju með brunann

Bjarni Harðarson er harður andstæðingur inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Bjarni Harðarson er harður andstæðingur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Mynd/Stefán Karlsson
Bjarni Harðarson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, óskar Össuri Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, til hamingju með eldvoðann á Þingvöllum og umfjöllun Alþingis um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Bjarni segir í pistli á heimasíðu sinni að allir eigi sína hamingjudaga og margt bendi til að ráðherrann hafi verið á hátindi síns ferils í gær en þá hafi gerst tvennt sem hann hafi lengi dreymt um.

„Valhöll á Þingvöllum brann til grunna og Alþingi Íslendinga tók til umfjöllunar tillögu sem miðar að því að leggja af sjálfstætt þjóðríki á Íslandi," segir Bjarni sem sat í Þingvallanefnd með Össuri.

Bjarni segist hafa lent í svæsnu orðaskaki við Össur fyrir tveimur árum þegar hann lagðist gegn sameiginlegum fyrirætlunum Össurar og Kristjáns Einarssonar slökkviliðsstjóra að rífa Hótel Valhöll. Bjarni segir að Össur hafi á þeim tíma vilja byggja þess í stað nýmóðins ráðstefnusal fyrir Alþingi.

„Nú er hálfnað Össurar-verkið við Valhöll sá draumur og orðið að veruleika að Alþingi ræði nú af alvöru um að ráða völd undan landinu til erlendra valdastofnana.

Mín trú og von er samt sú að áður en lýkur lúti vindbelgurinn Össur í gras, Íslendingar felli allar tillögur sem miði að skerðingu fullveldis og Valhöll verði endurreist í sem upprunalegastri mynd," segir Bjarni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×