Íslenski boltinn

KSÍ: Mikil vonbrigði að missa samninginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Þórir Hákonarson, Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/E. Stefán

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir að það séu mikil vonbrigði að Landsbankinn hafi hætt stuðningi sínum við efstu deild karla og kvenna í knattspyrnu.

Forráðamenn KSÍ hafa verið inntir eftir því reglulega eftir bankahrunið í haust hvort þeir teldu að nýir eigendur Landsbankans myndu halda áfram samstarfi sínu við KSÍ en samningurinn gilti til loka næsta tímabils. Þeir sögðust ávallt vera vongóðir um það.

„Já, þetta kom á óvart. Auðvitað vonuðumst við til þess að þetta samstarf myndi halda áfram út samningstímann. Allir vita að bankarnir eru komnir í hendur nýrra eigenda en við vorum engu að síður vongóðir," sagði Þórir í samtali við fréttastofu.

„Ég myndi ekki segja að þetta væri fjárhagslegt áfall fyrir KSÍ en það á þó eftir að koma betur í ljós. Við vonum ekki og ætlum nú að reyna að finna annan stuðningsaðila. En þetta er vissulega áfall, því er ekki að neita."

Aðspurður segir Þórir að sambandið hafi ekki unnið í því að reyna að finna aðra stuðningsaðila að deildunum eftir fall bankanna í haust. Hann segir þó ekki að hann telji að Landsbankinn hafi verið að draga KSÍ á asnaeyrunum.

„Ég myndi ekki segja það. Starfsmenn leyfðu okkur að fylgjast með hvað væri að gerast í þessum málum. Sjálfir voru þeir vongóðir um að það myndi halda áfram en það var auðvitað ekki þeirra ákvörðun. Ég held að þeir hafi orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum og við með þessa niðurstöðu."

„En tímasetningin er vissulega mjög slæm. Það er stutt í mót og aldrei að vita hvað gerist í þessum efnum. Við viljum að deildin skipi áfram sama sess og verið hefur. Við munum halda merki deildarinnar áfram á lofti.

Hann harmar mjög ákvörðun Landsbankans. „Ég held að þetta hafi verið eitt besta verkefnið sem bankinn hefur farið í og þar af leiðandi var ég vongóður um að það myndi halda áfram. Þetta eru mikil vonbrigði, fyrst og fremst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×