Íslenski boltinn

Fjórðungur leikmanna með 3-4 milljónir í árslaun

Úr leik í Landsbankadeildinni. Leikmennirnir á myndinni tengjast ekki fréttinni að öðru leyti en þeir spila í deildinni.
Úr leik í Landsbankadeildinni. Leikmennirnir á myndinni tengjast ekki fréttinni að öðru leyti en þeir spila í deildinni.

25% leikmanna í Landsbankadeild karla voru með 3-4 milljónir króna í árslaun í fyrra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í mastersritgerð í mannauðsstjórnun sem Guðni Erlendsson, nemi við Háskóla Íslands, skilaði af sér á dögunum.

„Ég lagði vefkönnun fyrir yfir 200 leikmenn í úrvalsdeildinni síðasta sumar og fékk svar frá 70% þeirra," sagði Guðni við fréttastofu en niðurstöðurnar eru vægast sagt áhugaverðar.

27% leikmanna þénuðu 2-3 milljónir króna á ári, 25% höfðu 3-4 milljónir og 5% voru með 4-5 milljónir í árslaun.

97% leikmanna í úrvalsdeildinni þiggja laun af einum eða öðrum toga og þar af eru 66% leikmanna sem þiggja fastar greiðslur allt árið. Ofan á það eru síðan þeir leikmenn sem þiggja bónusgreiðslur. Samkvæmt ritgerðinni höfðu 18% leikmanna bíl til afnota frá félaginu og þáðu bensínstyrk. 13% þáðu íbúð til afnota.

Þó slíkir leikmannasamningar séu nánast úr sögunni eftir efnahagshrunið þá gefur þessi könnun sláandi mynd af þeim samningum sem tíðkuðust í góðærinu. Fjórði hver leikmaður sagðist aðspurður að launagreiðslur væri forsenda þess að hann stundaði knattspyrnu.

Guðni kannaði einnig hug leikmanna til leikdaga í Landsbankadeildinni. Niðurröðun KSÍ er þvert á óskir mikils meirihluta leikmanna. 62% leikmanna vilja spila á fimmtudögum. Þar á eftir koma laugardagar með 18% og föstudagar 16%. Aðeins 2% leikmanna vilja spila á mánudögum eða sunnudögum þrátt fyrir að 64% leikja í fyrra voru spilaðir á þessum dögum.

Árslaun leikmanna í Landsbankadeild karla 2008

0-1 milljón: 5% leikmanna

1-2 milljónir: 18%

2-3 milljónir: 27%

3-4 milljónir 25%

4-5 milljónir: 5%

5-6 milljónir: 6%

7-8 milljónir: 1%

Annað: 1%

Hlunnindi leikmanna

Engin hlunnyndi: 5%

Æfingabúnaður: 94%

Bíll til afnota: 18%

Bensínstyrkur: 18%

Íbúð til afnota: 13%

Úttekt í verslunum: 9%

Frítt fæði: 5%

Annað: 1%




Fleiri fréttir

Sjá meira


×