Innlent

Kosningaskýring: ESB sinnuð framboð sigurvegararnir

Friðrik Indriðason skrifar

Evrópusambandssinnar eru sigurvegarar þessa kosninga. Samfylkingin hlýtur sína bestu kosningu frá upphafi og bætir við sig fjórum þingmönnum. Og Borgarahreyfingin er sem stendur með þrjá menn kjördæmakjörna á suðvesturhorni landsins.

Þá vekur athygli að Vinstri grænir fá ekki eins mikið fylgi og skoðanakannanir bentu til sem gæti skýrst af því að fólk hafi flutt sig frá þeim flokki og yfir á Samfylkinguna á síðustu dögum. Hinsvegar lítur út fyrir að ríkisstjórnarflokkarnar muni fái starfhæfann meirihluta sem einnig er í samræmi við skoðanakannanirnar.

Fyrstu tölur í kosningunum staðfesta það sem skoðannakannanir hafa sýnt undanfarnar vikur að fylgið hefur hrunið af Sjálfstæðisflokknum. Tölurnar úr Kraganum eru sláandi en þar tapar Sjálfstæðisflokkurinn helming af þingmönnum sínum í kjördæmi formannsins og varaformannsins.

Ástæður fyrir fylgishruni Sjálfstæðisflokksins eru öllum kunnar. Þær stærstu eru annarsvegar að kjósendur eru að refsa flokknum fyrir hrun efnahagslífsins og hinsvegar hefur styrkjamálið svokallað komið verulega við kaunin á flokknum.

Gott gengi Borgarahreyfingarinnar vekur athygli en sá flokkur hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarna daga. Sem stendur er flokkurinn með einn mann inni í Kraganum og tvo í Reykjavík suður og norður. Og fá fjóra menn á landsvísu samkvæmt fyrstu tölum.

Framsókn sem einnig má telja ESB sinnaðan fær svipað fylgi og skoðanakannanir bentu til en formaðurinn er sem stendur inni sem kjördæmakjörinn í Reykjavík norður en flokkurinn átti ekki mann þar fyrir. Fær flokkurinn yfir 12% sem telja verður nokkuð gott.

Frjálslyndi flokkurinnvirðist ætla að þurrkast út af þingi eins og kannanir höfðu gefið til kynna en ýmis innanmein hafa hrjáð flokkinn undanfarna mánuði og stefna hans hefur ekki náð eyrum kjósenda.

Álitsgjafar: Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, Bjarni Harðarson bóksali, Svanborg Sigmarsdóttir blaðamaður, Birgir Guðmundsson kennari, Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×