Lífið

Viskíflaska til höfuðs Agli, Fúsa og Audda

Egill, Auddi og Sigfús verða í skotlínunni á Íslandsmeistaramótinu í póker.
Egill, Auddi og Sigfús verða í skotlínunni á Íslandsmeistaramótinu í póker.

„Ég er vanur því að menn vilji taka fyrirliðann út. Þannig að ég kippi mér ekkert upp við að það sé „bounty" á mér. Það er bara gaman fyrir þessa fiska að fá að mæta fyrirliðanum," segir Egill „Þykki" Einarsson, líkamsræktarfrömuður og pókerspilari.

Á pókermáli er talað um „bounty" þegar aðrir spilarar fá sérstök verðlaun fyrir að taka valda menn út. Íslandsmeistaramótið í póker verður haldið á Hilton hótel Nordica um næstu helgi og spilararnir sem slá út Egil, sjónvarpsstjörnuna Auðun Blöndal og handboltatröllið Sigfús Sigurðsson fá að gjöf fágæta viskíflösku - hafi þeir náð tilskildum aldri.

Pláss er fyrir 180 spilara á mótinu og samkvæmt upplýsingum frá Pókersambandi Íslands eru um fjörutíu sæti eftir. Flestir hafa unnið sér inn þátttökurétt í svokölluðum „satellite"-mótum, þar sem efstu menn komast áfram. Yfir fjörutíu spilarar hafa hins vegar pungað út 40.000 krónum hver og keypt sér þátttökurétt á mótinu, enda til mikils að vinna; heildarpotturinn stefnir yfir sex milljónir og fyrsta sætið gefur eina og hálfa milljón í aðra hönd.

Egill fagnar því að taka þátt í móti þar sem vinningsupphæðirnar eru þess virði að spila upp á. „Núna nenni ég loksins að mæta með A-leikinn minn, eins og ég kýs að orða það," segir hann. „Ég hef ekki nennt að leggja mig 110 prósent fram í móti þar sem maður getur unnið eitthvað klink. Núna er potturinn sex kúlur. Þykki er að fara að ná sér í það. Það er bara þannig. Ein og hálf fyrir fyrsta, maður þarf ekkert að kvarta yfir því í kreppunni."- afb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.