Lífið

Listamenn ósáttir við val á borgarlistamanni

Þau Ágúst Guðmundsson og Áslaug Thorlacius lögðu fram bókun þegar menningar- og ferðamálaráð hafði útnefnt Steinunni Sigurðardóttur fatahönnuð sem borgarlistamann.
Þau Ágúst Guðmundsson og Áslaug Thorlacius lögðu fram bókun þegar menningar- og ferðamálaráð hafði útnefnt Steinunni Sigurðardóttur fatahönnuð sem borgarlistamann.

Áheyrnarfulltrúar Bandalags íslenskra listamanna, BÍL, í menningar-og ferðamálaráði lögðu fram bókun við þá ákvörðun að Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkurborgar. Allir kjörnir fulltrúar menningar- og ferðamálaráðs greiddu útnefningunni atkvæði sitt. Í bókun áheyrnarfulltrúanna kemur fram að ástæðulaust sé fyrir menningar-og ferðamálaráð að leita út fyrir Bandalag íslenskra listamanna en félagar í BÍL eru þrjú þúsund.

„Borgarlistamaður er heiðursnafnbót sem jafnframt fylgir peningaupphæð. Á þeim tímum þegar mjög þrengir að hjá listamönnum, jafnvel meira en hjá flestum öðrum starfsstéttum er mikilvægt að listamenn hljóti þó það sem listamönnum ber," segir í bókuninni. Jafnframt er tekið skýrt fram að ekki sé verið að vega að Steinunni Sigurðardóttur í bókuninni. „Enda hefur hún þegar fengið margvíslega og verðskuldaða viðurkenningu fyrir störf sín." Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta í fyrsta skipti í mörg ár sem fram kemur bókun frá áheyrnarfulltrúum BÍL þegar borgarlistamaður er tilnefndur.

Ágúst Guðmundsson kvikmyndaleikstjóri var annar áheyrnarfulltrúanna frá BÍL. Hann sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki ætla að taka það hlutverk að sér að skilgreina orðið listamaður. „Borgarstjórn vill þó greinilega túlka það hugtak á víðari hátt en við." Ágúst segist hafa viljað að borgarlistamaður kæmi úr hefðbundnari hópi listamanna og bendir í því samhengi á að aðildarfélögin að BÍL séu fjórtán. „Margir íslenskir hönnuðir eru að gera það gott á erlendum vettvangi og þá ekki síst Steinunn. Okkur finnst full ástæða til að meta það að verðleikum en útnefning borgarlistamanns er ekki rétti vettvangurinn fyrir það."

Fulltrúar meirihlutans í menningar- og ferðamálaráði lögðu fram bókun í kjölfar þessa og þar kemur fram að í reglum um útnefningu borgarlistamanns sé þess ekki getið að sá sem hljóti útnefningu þurfi að tilheyra félagi Bandalags íslenskra listamanna né öðrum fagfélögum. Á fundinum, sem haldinn var hinn 11. júní en var trúnaðarmál allt þar til í gær, kom jafnframt fram tillaga um að stofna til sérstakra Hönnunarverðlauna Reykjavíkurborgar. Fulltrúar listamanna lýstu yfir eindregnum stuðningi sínum við slík verðlaun.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.