Lífið

Hörmungar hversdagsins

Hallur og Halldóra reyna að syngja eins vel og þau geta á nýrri plötu, Disaster Songs.  Fréttablaðið/Rósa
Hallur og Halldóra reyna að syngja eins vel og þau geta á nýrri plötu, Disaster Songs. Fréttablaðið/Rósa

Hallur Ingólfsson og Halldóra Malín Pétursdóttir gefa út plötu 11. september sem heitir Disaster Songs. Hallur segist alltaf hafa langað til að gera plötu sem fjallar um ömurlegar aðstæður frá A til Ö.

„Ég heyrði Halldóru syngja í brúðkaupi, ég var reyndar búinn að heyra hana syngja áður, en það var það sem gerði útslagið. Ég var sem sagt búinn að semja þessi lög þá og ætlaði að fá hina og þessa til að syngja þetta með mér. Svo ákvað ég bara að fá Halldóru á móti mér í þetta og sé ekki eftir því.“

„Ég bara féll í stafi, þetta var svo fallegt og svo frábær hugmynd sem hann var með á bakinu, Disaster Songs, um fólk í hinum ýmsu hörmungum hversdagsleikans,“ útskýrir Halldóra.

Hallur tekur fram að hörmungarnar séu ekki tengdar þjóð­félagsástandinu eða náttúruhamförum. „Það er oft eitthvert lag á plötu sem segir eitthvað satt og einhverjum líður illa en svo koma hressu lögin inn á milli. Eða það er lag um að þó að allt sé ömurlegt, þá eigi maður samt að vera hress. Ég vildi að það væri til allavega ein plata sem væri ekkert að böggast yfir hvernig manni líður. Þetta hljómar kannski ekki vel á pappír, en mun betur þegar maður hlustar á plötuna.“

Hljómurinn er ekki þungur. „Persónurnar finna aldrei til með sjálfum sér, þetta verður aldrei eitthvað: Aumingja ég,“ segir Halldóra. Allar útsetningar eru minimalískar, „eins og eitthvað vanti eða sé farið og það sem er sé skemmt og skrítið,“ lýsir Hallur.

Plötunni verður fylgt eftir með miklu spileríi, en auk Halldóru og Halls eru upptökumennirnir Axel Árnason og Hafþór Karlsson, eða Haffi Tempó, og Ása Dýradóttir, bassaleikari Mammúts, í tónleikabandinu.

Halldóra hefur tónlistarferil sinn með plötunni. „Ég var bara veidd á stöng. Við Hallur hittumst fyrir ótrúlega löngu. Þá var hann að halda fyrirlestur í Listaháskólanum fyrir verkefni sem ég er að vinna. Svo hef ég alltaf verið að banka upp á dyrnar hjá honum. Hann er svo sjóaður, það er svo flott að hafa einhvern svona sjóaðan með sér þegar maður er að taka þessi barnaskref.“

kolbruns@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.