Lífið

Megas fer á menningarhátíð í Kanada

Afi Megas fer í sína jómfrúarferð til Kanada þegar hann leikur á íslensku menningarhátíðinni Now, eða Núna, hinn 30. apríl.
Afi Megas fer í sína jómfrúarferð til Kanada þegar hann leikur á íslensku menningarhátíðinni Now, eða Núna, hinn 30. apríl.

Fjöldi íslenskra listamanna kemur fram á íslensku menningarhátíðinni Núna, eða Now, sem stendur frá 24. apríl til 25. maí í Kanada. Meðal þeirra sem stíga á svið má nefna Bagga­lút, Kippa Kaninus, Borgar Magnússon og Lay Low. Aðalstjarna hátíðarinnar verður þó sjálfur Megas með hljómsveit sinni Senuþjófunum en Megas hefur verið kallaður afi íslenska rokksins í kanadískum fjölmiðlum að undanförnu.

Hátíðin þykir hafa heppnast gríðarlega vel undanfarin ár og skipuleggjendurnir hafa því brugðið á það ráð að lengja aðeins í henni. Hún er því fimm vikur í stað tíu daga. Megas kemur fram á tónleikastaðnum The Pyramid Cabaret hinn 30. apríl ásamt Baggalúti.

Ítarlega er fjallað um hátíðina á vef Winnipeg Free Press og þar fer einn af forsvarsmönnum hátíðarinnar, Anne McPherson, fögrum orðum um Megas.

„Margir hafa sagt að hann sé einhvers konar Bob Dylan þeirra Íslendinga," segir Anne í samtali við vefinn. „Og sumir halda því fram að hann sé afi íslenska rokksins," bætir Anne við.

Þótt tónlistarfólk verði áberandi á þessari alíslensku menningarhátíð í Kanada þá fær leiklistin einnig að blómstra því áðurnefnd McPherson hyggst setja upp verk Jóns Atla Jónassonar, Brim, í samstarfi við sex kanadíska leikara.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.