Innlent

Fengu ekki að greiða atkvæði

Hrefna Kap Gunnarsdóttir Býr í Danmörku og er vonsvikin yfir að geta ekki tekið þátt kosningunum til Alþingis heima á Íslandi.
Hrefna Kap Gunnarsdóttir Býr í Danmörku og er vonsvikin yfir að geta ekki tekið þátt kosningunum til Alþingis heima á Íslandi.

„Þetta er frekar spælandi þegar maður ætlar að taka þátt í sennilega mikilvægustu kosningum lífs síns," segir Hrefna Kap Gunnarsdóttir, sem í gær var vísað frá kjörstað á ræðismannsskrifstofu Íslands í Árósum í Danmörku.

„Þegar ég mætti til konsúlsins var okkur vísað frá vegna þess að kjörseðlarnir voru búnir," lýsir Hrefna. „Síðan var því bætt við að það myndi hvort eð er ekki þýða neitt því seðlarnir myndu ekki ná heim í tæka tíð. Þó var búið að auglýsa hjá Íslendingafélaginu að þetta væri síðasti dagurinn til að kjósa þannig að kjörseðlarnir kæmu heim á réttum tíma. Og í framhaldinu var okkur samt boðið að fara niður til Horsens, sem er í sextíu kílómetra fjarlægð og kjósa þar."

Að sögn Hrefnu komu fjórir aðrir á ræðismannsskrifstofuna til að kjósa þegar hún var þar um tvöleytið í gær og fengu sömu skilaboð. Sjálf hafi hún ekki haft tök á að fara til Horsens enda skammur tími til stefnu auk þess sem hún hafi verið með þrjú börn með sér. Þess utan hafi hún heyrt að mikil vandamál hafi verið með kosninguna í Horsens. Langar biðraðir hafi myndast og sumir gefist upp á biðinni. Þannig að Hrefna Kap Gunnarsdóttir greiðir ekki atkvæði í alþingiskosningunum og finnst það súrt í broti: „Það er kannski í lagi ef tölvukerfi klikkar en að eiga ekki kjörseðla er eitthvað sem á ekki að gerast." - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×