Innlent

Erlendir vildu fjárfesta í REI en fengu ekki

Höskuldur Kári Schram skrifar

Þrír alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir höfðu áhuga að fjárfesta í Reykjavík Energy Invest áður félagið var sameinað Geysir Green Energy. Fulltrúar sjóðanna fengu hins vegar aldrei að koma að samningaborðinu.

Til stóð að sameina REI og Geysir Green Energy í októbermánuði árið 2007. Geysir Green var þá að stórum hluta í eigu FL Group.

Ekkert varð hins vegar af sameinungunni eins og frægt er orðið.

Í byrjun septembermánaðar, aðeins nokkrum vikum áður en Geysir Green kom að málinu, höfðu þrír alþjóðlegir fjárfestingasjóðir lýst yfir miklum áhuga á að fjárfesta í REI. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða virta fjárfestingasjóði sem sérhæfa sig meðal annars í grænni orku.

Fulltrúar þessara sjóða höfðu boðað komu sína hingað til lands og vildu ræða við fulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur og REI um mögulegar fjárfestingar. Talað var um mörg hundruð milljónir dollara í þessu samhengi.

Áhuginn var gríðarlega mikill samkvæmt heimildum fréttastofu og í sumu tilfellum voru fulltrúar sjóðanna búnir að bóka flug til landsins þó ekki væri búið að ákveða neina formlega fundi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sýndi hins vegar stjórn REI málinu lítinn áhuga. Aðeins nokkrum dögum áður en til stóð að fulltrúar sjóðanna kæmu til landsins var tilkynnt um sameiningu REI og Geysis Green Energy.

Heimildarmenn fréttastofu segja að ef sjóðirnir hefðu fengið að fjárfesta í REI hefði samkeppnisstaða Geysis Green á markaðinum skaðast verulega.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sagði nýlega í fjölmiðlum að það hafi vakið sérstaka athygli á sínum tíma hversu hratt átti að keyra sameiningu félaganna í gegn. Aðkoma FL Group að málinu hafi verið óeðlileg en daginn eftir að tilkynnt var um sameininguna var haldinn hluthafafundur FL Group í London.

Þá hafi styrkveitingar FL Group til Sjálfstæðisflokks varpað nýju ljósi á málið og hefur Svandís kallað eftir því að Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi stjórnarformaður Orkuveiturnnar og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, upplýsi um sína prófkjörsstyrki.

Ekki náðist í Björn Inga Hrafnsson eða Hauk Leósson, fyrrverandi stjórnarmenn REI í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×