Lífið

Rebekka meðal þeirra vinsælustu

Íslenski ljósmyndarinn Rebekka Guðleifsdóttir er meðal fimm vinsælustu ljósmyndara á netinu.
Íslenski ljósmyndarinn Rebekka Guðleifsdóttir er meðal fimm vinsælustu ljósmyndara á netinu.

Samkvæmt vefsíðu hins virta ljósmyndatímarits Photo District News, pdnonline.com, er íslenski ljósmyndarinn Rebekka Guðleifsdóttir meðal fimm vinsælustu ljósmyndara internetsins. Samkvæmt Pdnonline er talið að yfir sex milljónir gesta hafi heimsótt Flickr-vefsíðu hennar. Fram kemur í greininni að erfitt sé að meta vinsældir á ljósmyndavefsíðunni Flickr en fáir geti státað af jafn góðum árangri og Rebekka. Enda hafi hróður hennar borist víða, greinar um hana hafi birst í tímaritum og blöðum beggja vegna Atlantshafsins.

Niðurstaða Photo District News er í samræmi við svipaða könnun sem Wall Street Journal gerði 2006 en þá var Rebekka sögð vera einn vinsælasti ljósmyndarinn sem sýndi verk sín á netinu. Vinnan sem Photo District News lagði á sig var nokkuð viðamikil, fimm helstu tæki vefsins voru rannsökuð en þetta voru bloggið, Facebook, Flickr, YouTube og Twitter. Og þeir vinsælustu á hverjum stað hlutu sinn sess í hópi hinna útvöldu hjá Pdnonline.

Fram kemur í greininni að Rebekka setji sífellt færri og færri myndir inná Flickr-síðu sína því í kjölfar athyglinnar hafi fleiri og fleiri athugasmemdir borist og sumar þeirra voru varla prenthæfar. „Þegar ég reyndi eitthvað tilraunakennt þá álitu sumir að ég hefði svikið aðdáendur mína og sendu mér tóninn,“ er haft eftir íslenska ljósmyndaranum.

Rebekka útskrifaðist nýlega úr Listaháskóla Íslands og er á mála hjá Nevica-project en það er listagallerí á netinu. „Ég er að læra að verða listamaður, þetta er ekki áhugamál heldur vinnan mín,“ er haft eftir Rebekku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.