Innlent

Mesta tækjagræjan á veiðar við Noregsstrendur

Stærsti plastbátur, sem smíðaður hefur verið hérlendis, kom í dag út úr bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Þrír Íslendingar ætla að gera hann út á línuveiðar við Noregsstrendur.

Eigendurnir eru þrír; bræðurnir Helgi og Hrafn Sigvaldasynir úr Grindavík og Bjarni Sigurðsson frá Húsavík. Báturinn er úr trefjaplasti, fimmtán metra langur, með svefnpláss fyrir sex manns, eldhús, salerni, þarna eru þvottavél og uppþvottavél og stýrishúsið er svo tækjavætt að minnir hreinlega á stjórnbúnað geimferju.

Báturinn er yfirbyggður að fullu, þannig að sjómennirnir verða í innivinnu úti á hafi, hafa sér til aðstoðar tækjalínu til slægja, blóðga og kæla fiskinn, og beitingavél fyrir 28 þúsund króka.

Helgi Sigvaldason skipstjóri segir að ekkert hafi verið til sparað. Í bátnum séu allar bestu græjur sem hægt er að fá. Raunar telja menn að annað eins hafi ekki sést áður í bát af þessari stærð og Helgi telur að þessi bátur sé einstakur í heiminum, hvað varðar útbúnað og lausnir í tengslum við gæði fisks. Öll herlegheitin kosta um 200 milljónir króna.

Báturinn verður hins vegar ekki gerður út á Íslandsmið heldur verður heimahöfnin Tromsö í Noregi. Ástæðan er sú að tveir eigendanna hafa lengi starfað sem sjómenn í Noregi og gerst norskir ríkisborgarar sem er forsenda þess að fá kvóta í Noregi.

Sjötíu prósent bátasmíðinnar hjá Trefjum er nú fyrir aðila erlendis og tvær aðrar pantanir eru komnar í bát af þessari stærð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×