Fótbolti

Zidane barðist við tárin í lokaleiknum með Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane eftir leikinn umrædda á móti Villarreal.
Zinedine Zidane eftir leikinn umrædda á móti Villarreal. Mynd/AFP

Zinedine Zidane lék sinn síðasta leik á ferlinum þegar hann var rekinn útaf í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Þýskalandi 2006 en nokkrum vikum áður gekk hann í gegnum mun erfiðari stund að eigin sögn þegar hann lék sinn síðasta leik með Real Madrid.

Zinedine Zidane lék sinn síðasta leik með Real Madrid á móti Villarreal á Santiago Bernabeu 7. maí 2006. Hann fékk frábæran stuðning fyrir leikinn, á meðan honum stóð og síðan að sjálfsögðu í lok hans.

„Þetta var tilfinningarík stund fyrir mig. Þeir sem þekkja mig segja örugglega að ég eigi ekki auðvelt með að tjá tilfinningarnar mínar en það var þó ekki þannig í þessum leik," sagði Zidane í viðtali við heimasíðu FIFA.

„Þegar ég horfi upp í stúkuna þá sá ég fjölskyldu og vini. Þau komu öll til að styðja við bakið á mér sem gerði þessa stund enn sérstakari fyrir mig. Ég man að ég þurfti að berjast við tárin," sagði Zidane.

„Þetta var síðasti leikurinn fyrir félagslið og ég hafði alltaf elskað það að spila fótbolta," bætti Zidane við. Hann vildi hinsvegar ekkert tjá sig um hvernig síðasta fótboltaleikurinn endaði en þar var hann rekinn útaf fyrir að keyra niður Ítalann Marco Materazzi.

„Það er búið að segja og skrifa svo mikið um þennan leik en hann tilheyrir núna sögunni," sagði Zidane.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×