Innlent

Ráðherra hafnar því að veggjöld að sunnan fari norður

Kristján L. Möller, samgönguráðherra.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að sú hugmynd að láta veggjöld af Suðurlandi niðurgreiða Vaðlaheiðargöng hafi ekki verið rædd við sig og komi ekki til greina.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að í viðræðum stjórnvalda og lífeyrissjóða, um fjármögnun framkvæmda, hefði verið ræddur sá möguleiki að veggjöld af stofnæðum út frá Reykjavík verði notuð til að niðurgreiða Vaðlaheiðargöng. Annars kynni einkaframkvæmd fyrir norðan að vera úr sögunni.

Hugmyndin að grafa 7,6 kílómetra löng göng undir Vaðlaheiði til að stytta leiðina um 15,5 kílómetra, og greiða með veggjöldum, virðist tæplega ganga upp fjárhagslega. Upphafleg hugmynd gerði ráð fyrir að veggjöld stæðu undir helmingi kostnaðar og ríkið kæmi svo með helmings mótframlag. Ekki eru horfur á að ríkissjóður verði aflögufær með slíkt á næstu árum og því þurfa veggjöld að standa alfarið undir sjö til átta milljarða króna framkvæmdakostnaði.

Innan stjórnkerfisins reiknast mönnum til að meðalveggjald þyrfti þá að vera í kringum 1.200 krónur á hvern bíl. Svo hátt gjald er hins vegar talið leiða til þess að stór hluti vegfarenda muni þá fremur kjósa að aka Víkurskarðið áfram.

Til að ekki þurfi að afskrifa Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd hefur, samkvæmt heimildum fréttastofu, sú hugmynd verið rædd, í viðræðunefnd stjórnvalda og lífeyrissjóða, að búinn verði til einn pottur allra nýrra veggjalda. Það myndi í raun þýða að veggjöld sem rætt er um að innheimta af stofnbrautum úr Reykjavík, - Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut, - færu að hluta í að niðurgreiða Vaðlaheiðargöng.

Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að sú hugmynd, að láta veggjöld af Suðurlandi niðurgreiða Vaðlaheiðargöng, hafi ekki verið rædd við sig og komi ekki til greina.

Arnar Sigurmundsson, talsmaður lífeyrissjóðanna í þessum viðræðum, segist hafa heyrt af þessari hugmynd en segir hana ekki frá stjórnvöldum komna og hún hafi ekki verið rædd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×